19. maí 2023

Mikilvægt að ríkið efni gerða samninga

Gildi er einn tuttugu lífeyrissjóða sem sendi á dögunum athugasemdir við áformaskjal fjármála- og efnahagsráðherra um slit og uppgjör á ÍL-sjóði (áður Íbúðalánasjóði). Gildi telur að áformin feli í sér tilraun til að sniðganga fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins sem ráðherra hefur nefnt að hann sjái fyrir sér að geta sparað ríkinu um 150 milljarða króna með sérstakri lagasetningu um slit á sjóðnum.

Í viðtali við Davíð Rúdólfsson, forstöðumann eignastýringar Gildis, um málefni ÍL-sjóðs í Kastljósi mánudaginn 15. maí var farið yfir ýmsa þætti málsins. Farið var m.a. yfir forsögu málsins, hvernig vandræði ÍL-sjóðs eru til komin, mikilvæg atriði í skilmálum skuldabréfa sjóðsins á sínum tíma og ábyrgð ríkisins á þeim.

Davíð Rúdólfsson í Kastljósi 16. maí 2023

Fram kom að það þætti eðlilegt að ríkissjóður, líkt og aðrir lántakar, standi við þær skuldbindingar sem um var samið og sagði Davíð að sjóðirnir hafi fengið ítarlega rökstudd álit þess efnis að ríkisábyrgðir að baki skuldabréfum ÍL-sjóðs séu í fullu gildi.

Hann áréttaði að ÍL-sjóður sé ekki gjaldþrota og hafi ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta. „Samkvæmt lögum þá verður hann ekki tekinn til gjaldþrotaskipta, þetta er mikilvægt atriði sem var í skilmálum á sínum tíma. Nú er ríkið að skoða að breyta þessari lykilforsendu til að knýja ríkisstofnun í þrot, sem er ekki heimilt“.

Varðandi mögulega lyktir á málinu eða frekari aðgerðir af hálfu lífeyrissjóðanna sagði Davíð: „Ég held að sjóðirnir hugi fyrst og fremst að hagsmunum sinna sjóðfélaga, m.a. þeirra sem fá lífeyri frá sjóðunum. Sjóðfélagar geta borið skaða ef menn semja frá sér einhverja hagsmuni sem virðist einmitt vera markmið af hálfu ríkisins, þ.e. að sjóðirnir fallist á að fá eitthvað minna fyrir sínar eignir. Og það er einfaldlega eitthvað sem sjóðirnir geta ekki gefið eftir. Það er mjög ríki umboðsskylda sem hvílir á sjóðunum og þar þurfa sjóðirnir að draga línu í sandinn og allar hugmyndir um lausnir málsins þurfa einmitt að byggja á fullum efndum.

Hægt er að horfa á viðtalið við Davíð Rúdólfsson í Kastljósi hér.