Lánareglur Gildis eru sveigjanlegar og bjóða upp á ýmsa möguleika fyrir sjóðfélaga. Hægt er að velja um verðtryggð lán með föstum eða breytilegum vöxtum eða óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Lánað er til allt að 40 ára.

Lánunum er skipt í tvo hluta ef veðhlutfall lántöku er umfram sett viðmið sjóðsins. Veitt eru grunnlán upp að 60% af virði fasteignar og viðbótarlán frá 60 til 70% af virði fasteignar.

Kostir:

  • Hægt að velja á milli verð- og óverðtryggðra lána
  • Allt að 70% lán miðað við virði eignar
  • Ekkert uppgreiðslugjald er á húsnæðislánum og hægt að greiða þau upp hvenær sem er

Eftirfarandi gildir um fasteignalán:

  • Aðeins er lánað gegn veði í íbúðarhúsnæði sem ætlað er sem lögheimili lántaka
  • Aðeins er veitt lán á eign sem er í fullri eigu lántaka (einstaklingur) eða í sameign við maka (hjón eða óvígð sambúð)
  • Ef umsækjendur eru tveir þurfa viðkomandi að vera í hjónabandi eða óvígðri sambúð til að geta sótt um sameiginlega lántöku hjá sjóðnum, báðir aðilar þurfa að vera eigendur að íbúðarhúsnæðinu og fara saman í greiðslumat
  • Ekki er heimilt að sækja um með foreldri eða systkini
  • Sé íbúðarhúsnæði eingöngu í eigu einstaklings skal í greiðslumati eingöngu miða við tekjur, eignir og skuldir hans
  • Undirritað kauptilboð þarf að fylgja umsókn ef verið er að sækja um lán til kaupa á fasteign
  • Ekki er veitt lán gegn lánsveði
  • Ekki er lánað gegn veði í sumarhúsi

Lántakandi velur:

  • Lengd lánstíma frá 5 árum til 40 ára
  • Verðtryggða eða óverðtryggða vexti
  • Fasta eða breytilega vexti
  • Jafnar afborganir eða jafnar greiðslur

Upplýsingar um greiðslumat:

  • Lífeyrissjóðurinn framkvæmir greiðslumat og metur lánshæfi umsækjanda
  • Heimilt er að gera undantekningu frá greiðslumati ef verið er að endurfjármagna lán frá lífeyrissjóðnum sem miðar einungis að uppgreiðslu eldra fasteignaláns eða -lána ásamt lántökukostnaði og breytingin hefur ekki í för með sér hækkun reglulegra endurgreiðslna
  • Miðað er við reglulegar 12 mánaðar tekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá frá ríkisskattstjóra
  • Í greiðslumati er ekki tekið tillit til leigutekna
  • Ekki er lánað ef lántaki er á vanskilaskrá
  • Maki má ekki vera með í greiðslumat nema að hann sé skráður eigandi eignarinnar

Gott að vita

  • Er hægt að greiða aukalega inn á lán?

    Já það er hægt að greiða aukalega inn á lán.

    Ef viðkomandi er með netbanka hjá Íslandsbanka er það gert með skipun í heimabanka en að öðrum kosti er hægt að millifæra inn á reikning 0526-22-1, kt. 421289-2639 og hafa lánsnúmer í tilvísun (Íslandsbanki er innheimtuaðili).

    Ef verið er að greiða upp lán verður að hafa samband við Íslandsbanka með uppgreiðsluverðmæti þess dags sem greiða á lán.

  • Er uppgreiðslugjald á lánum hjá Gildi?

    Ekkert uppgreiðslugjald er á lánum hjá Gildi og hægt að greiða þau upp hvenær sem er.

  • Hver eru viðmið Seðlabanka Íslands?

    Seðlabankinn hefur sett reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána. Þær fela í sér að greiðslubyrði fasteignalána má að hámarki vera 35% af ráðstöfunartekjum nema ef um fyrstu kaup er að ræða, þá má hún fara í 40% að hámarki.

    Viðmið fyrir útreikning á hámarks greiðslubyrði samkvæmt reglum SÍ er jafnar greiðslur. Ef lánið er óverðtryggt er reiknað með 40 ára lánstíma og samningsvöxtum en þó að lágmarki 5,5% vöxtum. Fyrir verðtryggð lán er reiknað með 25 ára lánstíma og samningsvöxtum en þó að lágmarki 3% vöxtum, þótt greiðslufyrirkomulag og lánstími lánveitingarinnar kunni að vera annar.

  • Hvaða kröfur eru gerðar til lántaka?

    Standast þarf bæði greiðslumat og lánshæfismat.

    Leggja þarf fram veð í íbúðarhúsnæði á Íslandi til að geta fengið lán. Veðsetningarhlutfall má aldrei vera hærra en 70% af metnu markasvirði viðkomandi eignar. Til grundvallar metnu markaðsvirði liggur nýlegur kaupsamningur eða fasteignamat þess árs sem er að líða.

    Lán skiptast í grunnlán og viðbótarlán eftir veðsetningarhlutfalli. Grunnlán er með allt að 60% veðsetningarhlutfall og viðbótarlán með 60-70% veðsetningarhlutfall.

    Veðsetningin má ekki heldur fara yfir 100% af brunabótamati eignar að viðbættu lóðamati.

    Sem dæmi má taka að hámarkslán fasteignar að verðmæti 30 m.kr. er 22,5 m.kr. svo fremi að skilyrði um brunabótamat sé uppfyllt. Ekki er lánuð hærri upphæð en 75 m.kr. (þ.m.t. viðbótarlán). Nánari upplýsingar má sjá í lánareglum.

  • Hvernig lán er hægt að fá hjá Gildi?

    Lántakandi getur valið um eftirfarandi:

    • Verðtryggt lán með föstum vöxtum.
    • Verðtryggt lán með breytilegum vöxtum.
    • Óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum.
    • Blöndu ofangreindra möguleika.
  • Hvernig eru ákvarðanir um vaxtabreytingar teknar?

    Stjórn Gildis tekur ákvörðun um breytingar á vaxtakjörum sjóðfélagalána. Við þær ákvarðanir er einkum horft til vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins en fleiri atriði eru einnig höfð til hliðsjónar. Þau eru breytileg eftir lánategundum en geta meðal annars verið stýrivextir Seðlabanka Íslands, innlánsvextir sem og söguleg og vænt verðbólga. Nánari upplýsingar má finna í lánareglum Gildis.

  • Hver er afgreiðslutími lána?

    Það tekur jafnan 2-3 vikur að afgreiða lánsumsókn.

    Lántaki þarf sjálfur að koma skuldabréfum til þinglýsingar, misjafnt er eftir Sýslumannsembættum hversu langan tíma það tekur.

  • Hvenær er lán greitt út?

    Skuldabréfin sjálf þarf að undirrita ásamt tveimur vottum og koma þeim til þinglýsingar og sækja þegar búið er að þinglýsa. Skuldabréf verður ekki greitt út fyrr en þinglýst skjal hefur borist sjóðnum.

  • Hver er munurinn á láni með jöfnum afborgunum og láni með jöfnum greiðslum (annuitet)?

    Með jöfnum afborgunum er greiðslubyrði mest til að byrja með en heildargreiðslur lækka þegar líður á lánstímann. Í fyrstu verður eignamyndum því hraðari en með jafngreiðsluláni (annuitet).

    Með jöfnum greiðslum (annuitet) helst greiðslubyrði lánsins sú sama út lánstímann. Til að byrja með er afborgun af höfuðstól lág en greiðsla af vöxtum há. Með tímanum snýst þetta svo við.

  • Hver er munurinn á verðtryggðu láni og óverðtryggðu láni?

    Höfuðstóll verðtryggðs láns er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs. Það þarf því að verðbæta höfuðstólinn áður en reglulegar afborganir og vextir eru reiknuð út. Ef tekið er dæmi af 10 m.kr. láni þar sem vísitala neysluverðs hækkar um 1% milli gjalddaga, t.d. úr 100 stigum í 101 stig, þá þarf einnig að hækka (verðbæta) höfuðstólinn um 1%. Hann hækkar því úr 10 m.kr. í 10,1 m.kr. áður en vaxta- og afborgunargreiðslur eru reiknaðar.

    Höfuðstóll óverðtryggðs láns tekur ekki breytingum í tengslum við vísitölu neysluverðs. Fyrir vikið eru óverðtryggðir vextir hærri en verðtryggðir.

    Segja má að verðtryggt lán feli almennt í sér lægri greiðslubyrði en óverðtryggt og hægari eignamyndun.

  • Hver er munurinn á föstum og breytilegum vöxtum?

    Fastir vextir fela í sér að vaxtaprósenta lánsins er sú sama allan lánstímann.

    Breytilegir vextir breytast samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverjum tíma. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til ávöxtunarkröfu á skráðum verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins.

    Því má gera ráð fyrir að vextir hækki eða lækki á lánstímanum sem hefur áhrif á greiðslubyrði slíkra lána.

  • Hvað eru lán hjá Gildi til langs tíma?

    Mögulegur lánstími er 5-40 ár að vali lántaka.

  • Hvað gerist ef lán lendir í vanskilum?

    Ef ekki er staðið í skilum með greiðslu afborgana eða vaxta á réttum gjalddögum greiðast dráttarvextir af vanefndum auk innheimtukostnaðar samkvæmt verðskrá viðskiptabanka eða lögfræðistofu á hverjum tíma.

    Ef ekki er staðið við samninginn er Gildi heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust. Sem síðasta úrræði gæti heimili lántaka (veðsett eign) verið seld nauðungarsölu.