Lánareglur

1. Réttur til að sækja um lán

Umsækjandi þarf að hafa greitt iðgjöld í Gildi-lífeyrissjóð, annað hvort í samtryggingardeild eða séreign.




2. Vextir og verðtrygging

Hægt er að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána eða blöndu af hvoru tveggja. Verðtryggð lán bjóðast með föstum vöxtum eða breytilegum vöxtum. Óverðtryggð lán bjóðast með breytilegum vöxtum. Hægt er að velja á milli lána með jöfnum greiðslum (annuitet) og jöfnum afborgunum.

Lán skiptast í grunnlán og viðbótarlán eftir veðsetningarhlutfalli. Grunnlán miða við veðsetningu allt að 60% af virði viðkomandi eignar. Viðbótarlán er sá hluti láns sem er á bilinu 60-70% af virði eignar.

2.1 Grunnlán, allt að 60% veðsetningarhlutfall

2.1.1 Verðtryggð lán með föstum vöxtum

Fastir vextir miðast við útgáfudag skuldabréfsins og eru nú 4,30%. Lánin eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Fastir vextir verðtryggðra lána breytast ekki á lánstímanum.

2.1.2 Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum

Breytilegir vextir eru nú 4,00%. Vaxtakjörin geta tekið breytingum yfir lánstímann samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til ávöxtunarkröfu á skráðum verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins. Lánin eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs.

2.1.3 Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum

Breytilegir vextir eru nú 10,20%. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til stýrivaxta Seðlabanka Íslands, innlánavaxta, ávöxtunarkröfu á skráðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, sögulegrar og væntrar verðbólgu, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins.

2.2 Viðbótarlán, 60-70% veðsetningarhlutfall

2.2.1 Verðtryggð lán með föstum vöxtum

Fastir vextir miðast við útgáfudag skuldabréfsins og eru nú 5,05%. Lánin eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Fastir vextir verðtryggðra lána breytast ekki á lánstímanum.

2.2.2 Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum

Breytilegir vextir eru nú 4,75%. Vaxtakjörin geta tekið breytingum yfir lánstímann samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til ávöxtunarkröfu á skráðum verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins. Lánin eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs.

2.2.3 Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum

Breytilegir vextir eru nú 10,95%. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til stýrivaxta Seðlabanka Íslands, innlánavaxta, ávöxtunarkröfu á skráðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, sögulegrar og væntrar verðbólgu, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins.

2.2.4 Skilyrði varðandi veðsetningu

Lán eru eingöngu veitt ef Gildi-lífeyrissjóður lánar í samfelldri veðröð frá og með fyrsta veðrétti. Þó er heimilt að veita undantekningu frá framangreindri kröfu um fyrsta veðrétt og samfellda veðröð ef lánsfjárhæð frá öðrum lánveitendum er innan 20% af verðmæti fasteignar. Samanlögð fjárhæð Gildis og fremri veðhafa skal ekki fara yfir hámarksfjárhæð skv. gr. 3.2.

Grunnlán Viðbótarlán
Verðtryggt, fastir vextir 4,30% 5,05%
Verðtryggt, breytilegir vextir 4,00% 4,75%
Óverðtryggt, breytilegir vextir 10,20% 10,95%




3. Lánsfjárhæð

3.1 Lágmarkslán sem sjóðurinn veitir er kr. 1.000.000.

3.2 Hámarksfjárhæð sjóðfélagalána til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er kr. 75.000.000 samanlagt (þ.m.t. viðbótarlán) en tekur jafnframt mið af veðrými, sbr. gr. 5.3, og mati á greiðslugetu og lánshæfi umsækjanda, sbr. 6. gr.

Þrátt fyrir framangreint er heimilt að veita lán með veði í sömu fasteign umfram hámarksfjárhæð þegar um er að ræða endurfjármögnun á fasteignaláni/lánum sem þegar hafa verið veitt af sjóðnum og hinum nýju lánum (grunnlán og viðbótarlán) að frátöldum kostnaði sé eingöngu ráðstafað til uppgreiðslu að fullu á eldri lánum hjá sjóðnum með veði í sömu fasteign.



4. Lánstími og uppgreiðsla

4.1 Lánstími er 5 – 40 ár að vali lántaka.

4.2 Afborganir eru mánaðarlega.

4.3 Heimilt er að greiða lán upp að hluta eða öllu leyti án uppgreiðslugjalds.


5. Veð í fasteign

5.1 Aðeins er lánað gegn veði í íbúðarhúsnæði sem ætlað er sem lögheimili lántaka. Ekki er lánað til fasteignakaupa í atvinnuskyni, s.s. til útleigu.

5.2 Ef íbúðarhúsnæðið sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta í eigu maka sjóðfélaga (hjúskap eða óvígðri sambúð) er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki (samskuldari) að umbeðnu láni.

5.3 Veðsetningarhlutfall skal aldrei vera hærra en 70% og tekur mið af fasteignamati eignar eða kaupverði samkvæmt kaupsamningi eða samþykktu kauptilboði. Kaupsamningur má ekki vera eldri en 6 mánaða frá dagsetningu umsóknar. Veðsetning má þó aldrei fara yfir 100% af brunabótamati eignarinnar að viðbættu lóðarmati.

Þrátt fyrir framangreint er heimilt að veita viðbótarlán með hærra veðsetningarhlutfalli en 70% þegar um er að ræða endurfjármögnun á fasteignaláni/lánum sem þegar hafa verið veitt af sjóðnum og hinum nýju lánum (grunnlán og viðbótarlán) að frátöldum kostnaði sé eingöngu ráðstafað til uppgreiðslu að fullu á eldri lánum hjá sjóðnum með veði í sömu fasteign.

5.4 Hús í smíðum telst veðhæft sé lagt fram fokheldisvottorð og brunatryggingarvottorð, ásamt verðmati löggilts fasteignasala, sem valinn er í samráði við sjóðinn.

5.5 Heimilt er að veita lán gegn veði í fasteign sem háð er ákvæðum laga um félagslegt húsnæði ef minnst 15 ár eru liðin frá útgáfu afsals til eiganda eða kvöð er aflétt.

5.6 Ekki er lánað út á eignir ef fasteignamat eða kaupverð er lægra en kr. 7.000.000.

5.7 Heimilt er að skerða eða hafna lánveitingu ef vafi leikur á um möguleika á endursölu eignar að mati sjóðsins eða ef vafi er talinn leika á mati á verðmæti hennar að öðru leyti, s.s. vegna ástands eignar.


6. Mat á greiðslugetu og lánshæfi

Samkvæmt 20. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 ber lífeyrissjóðnum að jafnaði að gera greiðslumat á umsækjanda. Einnig ber lífeyrissjóðnum skv. sömu grein sömu laga að meta lánshæfi umsækjanda. Þá áskilur sjóðurinn sér rétt til að kanna stöðu lántaka á vanskilaskrá Creditinfo. Lífeyrissjóðnum er heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð ef niðurstaða lánshæfis- og/eða greiðslumats leiðir í ljós að umsækjandi hafi ekki fjárhagslega burði til lántökunnar eða ásættanlegt lánshæfi.


7. Kostnaður við lántöku

Kostnaður við lántöku fer samkvæmt gjaldskrá sjóðsins. Þinglýsingargjöld og innheimtukostnað banka ber lántaka að greiða.


8. Afgreiðsla lána

Eftir að lán hefur verið samþykkt er skuldabréf gefið út og því þarf að þinglýsa. Skuldabréf eru keypt (greidd út) að lokinni þinglýsingu. Lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt til að kaupa ekki og aflýsa veðskuldabréfum sem ekki er skilað til sjóðsins innan þriggja mánaða frá útgáfudegi eða ef verulegar breytingar hafa orðið á forsendum lántöku frá samþykkt lánsins.


9. Annað

Gildi-lífeyrissjóður áskilur sér rétt til þess að hafna lánsbeiðnum af hvaða ástæðu sem er.



10. Gildistaka

Reglur þessar öðlast gildi frá og með 5. desember 2024.

Sjóðurinn áskilur sér rétt til að kanna stöðu lántaka á vanskilaskrá Creditinfo.
Lánsumsóknum verður svarað símleiðis eða með tölvupósti þegar öll nauðsynleg gögn hafa borist sjóðnum og þau yfirfarin.

Hægt er að nálgast upplýsingar um fasteignamat og brunabótamat fasteigna á vef Þjóðskrár Íslands.