Starfskjarastefna

1. Gildissvið og markmið

1.1 Starfskjarastefna Gildis-lífeyrissjóðs tekur mið af samþykktum sjóðsins sem og þeim meginreglum sem liggja til grundvallar 79. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Starfskjarastefnan tekur til starfskjara stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna og annarra starfsmanna sjóðsins.

1.2 Markmið með starfskjarastefnu þessari er að styðja við góða stjórnarhætti í rekstri sjóðsins. Starfskjarastefnunni er ætlað að treysta langtímahagsmuni sjóðfélaga, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gagnsæjum hætti. Það er stefna sjóðsins að bjóða stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum sjóðsins samkeppnishæf kjör og starfsumhverfi á við það sem býðst í hliðstæðum störfum hér á landi þannig að starfskjör séu hvetjandi, styðji við rekstrar- og þjónustumarkmið sjóðsins og að eðlilegt samræmi sé í launasetningu sjóðsins.

1.3 Gæta skal að viðurkenndum jafnréttis- og jafnlaunasjónarmiðum við ákvörðun launa og starfskjara. Stefnt skal að því að ljúka jafnlaunavottun ekki síðar en í árslok 2019.

2. Starfskjör stjórnarmanna

2.1 Ársfundur sjóðsins skal skipa starfskjaranefnd sem leggur fram tillögu um laun stjórnar fyrir ársfund. Í tillögum sínum skal nefndin miða við að laun stjórnarmanna endurspegli ábyrgð, sérþekkingu, reynslu og þann tíma sem verja þarf til stjórnarstarfa. Nefndin skal kynna stjórn sjóðsins tillögur sínar eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársfund Gildis.

2.2 Starfskjaranefndin skal skipuð þremur mönnum hið minnsta, formanni stjórnar sjóðsins, einum aðila af hálfu launafólks og einum aðila af hálfu atvinnurekenda.

2.3 Gildi greiðir ferða- og dvalarkostnað vegna starfa stjórnarmanna sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins.

3. Starfskjör framkvæmdastjóra

3.1 Í samræmi við samþykktir og starfsreglur stjórnar sjóðsins skulu laun og önnur starfskjör koma fram í skriflegum ráðningarsamningi framkvæmdastjóra. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra og veitir honum lausn en stjórn sjóðsins getur falið formanni og varaformanni stjórnar að annast samninga við framkvæmdastjóra um laun og starfskjör samanber starfsreglur stjórnar.

3.2 Föst laun og aðrar greiðslur skulu vera sambærileg við það sem gerist í starfsumhverfi framkvæmdastjóra sjóðsins og í samræmi við umsvif, ábyrgð og árangur í starfi. Í ráðningarsamningi skulu koma fram greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi og ákvæði um uppsagnarfrest.

3.3 Miða skal við að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi.

4. Starfskjör lykilstarfsmanna

4.1 Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur sjóðsins og ráðningu starfsmanna samkvæmt samþykktum sjóðsins.

4.2 Við ráðningu lykilstarfsmanna skal framkvæmdastjóri hafa samráð við formann og varaformann stjórnar sjóðsins.

4.3 Við ákvörðun starfskjara lykilstarfsmanna skal gætt sömu sjónarmiða og koma fram í gr. 1.2. Ef um frávik er að ræða skal það borið undir formann og varaformann stjórnar sjóðsins.

5. Starfskjör annarra starfsmanna

5.1 Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur sjóðsins og ráðningu starfsmanna samkvæmt samþykktum sjóðsins. Skrifstofustjóri sjóðsins kemur einnig að ráðningu starfsmanna annarra en lykilstarfsmanna sjóðsins.

5.2 Við ákvörðun starfskjara starfsmanna skal gætt sömu sjónarmiða og koma fram í gr. 1.2. Ef um frávik er að ræða skal það borið undir formann og varaformann stjórnar sjóðsins.

6. Skaðleysi stjórnar og starfsmanna

6.1 Sjóðurinn skal tryggja að á hverjum tíma sé í gildi starfsábyrgðartrygging fyrir stjórnarmenn, framkvæmdstjóra og aðra lykilstarfsmenn sjóðsins, bæði starfandi og fyrrverandi, vegna starfa þeirra í þágu sjóðsins. Sjóðurinn skal tryggja að þeim sé haldið skaðlausum af kröfum sem á þá kunna að verða gerðar eða á þá kunna að falla vegna starfa þeirra fyrir sjóðinn að svo miklu leyti sem slík krafa er ekki til komin fyrir saknæma háttsemi hlutaðeigandi sem metin er honum sem ásetningur eða stórfellt gáleysi.

6.2 Sjóðurinn greiðir iðgjald starfsábyrgðartryggingar og eðlilegan kostnað af málsvörn gagnvart kröfum eða rannsóknum af ofangreindum toga með fyrirvara um rétt til endurkröfu, komi síðar í ljós að viðkomandi hafi í umræddu tilviki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við sjóðinn eða ákvæðum laga í starfi sínu fyrir þá.

7. Upplýsingagjöf

7.1 Ársreikningur sjóðsins skal tiltaka starfskjör stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og þeirra lykilstarfsmanna sem falla undir ákvæði reglugerðar um ársreikninga lífeyrissjóða á hverjum tíma.

7.2 Starfskjarastefnan skal birt í ársskýrslu og á heimasíðu Gildis.

8. Samþykkt starfskjarastefnu

8.1 Starfskjarastefnan skal samþykkt á ársfundi sjóðsins með eða án breytinga.

8.2 Ef vikið er frá starfskjarastefnunni í veigamiklum atriðum skal stjórn sjóðsins færa slík frávik til bókar í fundargerðarbók ásamt rökstuðningi. Gera skal grein fyrir slíkum frávikum á næsta ársfundi sjóðsins.

Samþykkt á stjórnarfundi sjóðsins 14. júní 2018