Samþykktir

með breytingum samþykktum á ársfundi Gildis 24.4.2024

1. Nafn sjóðsins og heimili

1.1 Sjóðurinn heitir Gildi-lífeyrissjóður.

Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. Hlutverk sjóðsins

2.1. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.

2.2. Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Grundvöll sjóðsins má rekja til samkomulags stéttarfélaga og atvinnurekenda frá 19. maí 1969 og 12. desember 1995 ásamt síðari breytingum og markmið samþykkta sjóðsins að tryggja þau lágmarksréttindi sem þar greinir.

2.3. Lífeyrissjóðurinn skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem er til að sinna hlutverki sínu og er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

2.4. Sjóðurinn skiptist í þrjár deildir, samtryggingardeild, tilgreinda séreignardeild og séreignardeild. Í 22. kafla samþykkta þessara er fjallað sérstaklega um tilgreinda séreignardeild sjóðsins og í 23. kafla er fjallað sérstaklega um séreignardeild sjóðsins.

3. Sjóðfélagar

3.1. Aðild að lífeyrissjóðnum eiga allir þeir launamenn, sem náð hafa 16 ára aldri fyrir lok næsta almanaksmánaðar á undan, og byggja ráðningarbundin starfskjör á kjarasamningum þeirra stéttarfélaga og sambanda sem eiga aðild að sjóðnum eða starfa í starfsgreinum þar sem kjarasamningar aðildarfélaganna eru ákvarðandi um lágmarkskjör, enda sé aðild þeirra ekki á annan veg ákveðin í kjarasamningi einstaks aðildarfélags hlutaðeigandi samtaka. Sjóð-félagar eru þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjöld til sjóðsins og eiga hjá honum réttindi.

3.2. Aðildarsamtök sjóðsins af hálfu launamanna eru Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, Efling- stéttarfélag, Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði, Félag skipstjórnar-manna, Sjómannafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, VM-Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðsfélag Vestfirðinga, en Samtök atvinnulífsins af hálfu atvinnurekenda.

3.3. Óheimilt er að neita manni um aðild að lífeyrissjóðnum á grundvelli heilsufars hans, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns.

3.4. Heimilt er launamanni sem gerist sjálfstæður atvinnurekandi að halda áfram þátttöku í sjóðnum. Þá er atvinnurekendum sem tengjast starfssviði sjóðsins heimil sjóðsaðild, en biðtími skv. 12.-14. gr. skal reiknast frá lokum næsta mánaðar eftir þann mánuð er iðgjald berst sjóðnum fyrsta sinni. Sama á við um þá aðila sem ekki eru bundnir kjarasamningum eða að ráðningarbundin starfskjör þeirra byggjast ekki á kjarasamningi, en óska eigi að síður eftir aðild að sjóðnum.

3.5. Sjómenn sem hefðu átt rétt til aðildar að Lífeyrissjóði sjómanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1999 eiga sama rétt til aðildar að Gildi-lífeyrissjóði, án tillits til annarra ákvæða samþykkta þessara.

3.6. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita íslenskum launamönnum sem starfa erlendis, s.s. sjómönnum sem starfa á skipum skráðum erlendis, aðild að sjóðnum, enda komi þá réttindi aðeins fyrir þau iðgjöld sem sjóðnum berast þeirra vegna.

3.7. Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa félögum og samböndum atvinnurekenda og launamanna sem að sjóðnum standa að tryggja starfsmenn sína í sjóðnum.

3.8. Nú óskar stéttarfélag eftir aðild að þessum sjóði og er þá stjórn sjóðsins heimilt að veita félagsmönnum þess og þeim sem taka laun eftir viðurkenndum launatöxtum þess leyfi til að gerast sjóðfélagar. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að leyfa félögum og samböndum sem standa að samningum um kaup og kjör þeirra launamanna, er aðild eiga að sjóðnum, að tryggja í honum þá starfsmenn sína sem ekki eiga aðild að öðrum lífeyrissjóðum.

3.9. Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um samruna þeirra við Gildi-lífeyrissjóð. Stjórnin skal gæta þess að réttur sjóðfélaga sjóðsins verði ekki skertur við samrunann og jafnframt að hann sé ekki bættur á kostnað sjóðfélaga hinna sjóðanna. Stéttarfélög sem að slíkum sjóðum standa fá fulla aðild að fulltrúaráði skv. gr. 5.3. Stjórn sjóðsins er jafnframt heimilt að selja öðrum lífeyrissjóðum tryggingavernd og hafa samstarf við aðra lífeyrissjóði um einstaka þætti tryggingaverndar. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að bjóða sjóðfélögum og öðrum aðilum samninga um viðbótartryggingavernd og séreignar-sparnað í samræmi við lög nr. 129/1997.

3.10. Heimilt er að flytja iðgjöld og þar með réttindi sem þeim fylgja milli lífeyrissjóða þegar að töku lífeyris kemur. Aðild að sjóðnum fellur niður ef sjóðfélagi fær útborguð réttindi sín í einu lagi eða þau flytjast samkvæmt samskiptareglum lífeyrissjóða í annan lífeyrissjóð. Brottfall aðildar skulu aðildarfélög sjóðsins tilkynna skriflega með 6 mánaða fyrirvara og miðast við áramót.

4. Stjórn

4.1. Stjórn sjóðsins skal skipuð átta mönnum. Fjórir skulu kosnir af fulltrúum sjóðfélaga á ársfundi ásamt tveimur varamönnum og fjórir staðfestir af fulltrúum atvinnurekenda í fulltrúaráði á grundvelli tilnefningar Samtaka atvinnulífsins ásamt tveimur varamönnum. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og skal árlega kjósa helming stjórnarmanna og varamenn þeirra. Gæta skal ákvæða laga um kynjahlutföll við skipan stjórnar. Óheimilt er að afturkalla umboð stjórnarmanns á kjörtímabilinu nema hann bresti hæfi til að gegna stjórnarsetu samkvæmt lögum eða samþykktum sjóðsins. Tilnefningaraðili skal tilkynna stjórn sjóðsins með formlegum hætti rökstudda ákvörðun um afturköllun umboðs með tilvísun í viðeigandi lagaákvæði, samþykktir eða reglur. Afturkalli tilnefningaraðili umboð stjórnarmanns skal fulltrúaráð þess aðila staðfesta þá ákvörðun ásamt tilnefningu nýs stjórnarmanns fram að næsta ársfundi. Tilnefningaraðilar eru Samtök atvinnulífsins annars vegar og tilnefningarnefnd launamanna hins vegar, sbr. gr. 5.5. í samþykktum sjóðsins.

4.2. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa gott orðspor og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu og mega ekki á síðustu fimm árum, í tengslum við atvinnurekstur, hafa fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Stjórnarmenn sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eru þó undanþegnir þessu búsetuskilyrði. Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Stjórnarmenn skulu rækja skyldur sínar af heilindum, hafa möguleika á að verja þeim tíma til stjórnarstarfa sem slík seta krefst og taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.

4.3. Stjórnarmenn skulu ekki sitja lengur en átta ár samfleytt sem aðalmenn í stjórn sjóðsins. Einstaklingur sem setið hefur sem aðalmaður í 8 ár má ekki taka sæti sem aðalmaður fyrr en að þremur árum liðnum.

4.4. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skulu fulltrúar vinnuveitenda og stéttarfélaga hafa á hendi formennsku til skiptis eitt ár í senn. Stjórnin skal setja sér starfsreglur, hún skal halda gerðarbók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þurfa fimm stjórnarmenn að greiða henni atkvæði. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnarmanna er mættur eða varamenn í þeirra stað. Viðhafa skal leynilega atkvæðagreiðslu ef einn eða fleiri stjórnarmenn krefjast þess.

4.5. Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins mótar innra eftirlit sjóðsins og skjalfestir eftirlitsferla, ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila um að annast innra eftirlit. Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingar- og áhættustefnu hans, setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar um rekstur, iðgjöld, réttindaávinnslu og ráðstöfun eigna sjóðsins. Þá skal stjórnin setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna og fá þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.

Stjórn sjóðsins skal árlega skipa að minnsta kosti þriggja manna endurskoðunar- og áhættunefnd sem hafi m.a. eftirlit með reikningshaldi, áhættustýringu og gerð ársreiknings sjóðsins í samræmi við ákvæði IX. kafla um ársreikninga nr. 3/2006.

4.6. Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum starfs-mönnum.

4.7. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við mótaða stefnu og ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjóri fer með atkvæði sjóðsins á fundum hlutafélaga sem sjóðurinn á hluti í, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Um hæfi framkvæmdastjóra fer að öðru leyti eftir ákvæðum greinar 4.2.

4.8. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka á grundvelli sérstakrar ákvörðunar stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund skal haft samráð við formann og varaformann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

4.9. Allar meiriháttar breytingar á skipulagi sjóðsins, innra eftirliti, bókhaldi og reikningsskilum, skal framkvæmdastjóri aðeins gera að höfðu samráði við stjórn, og að fengnu samþykki hennar.

4.10. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum ber einnig að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu og þeim útlánareglum sem stjórnin setur. Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins. Framkvæmdastjóri skal veita stjórn og endurskoðendum allar þær upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins sem þeir óska.

4.11. Hvorki stjórnarmenn né starfsmenn mega taka þátt í meðferð máls ef þeir hafa persónulegra og verulegra hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður, starfsmaður eða af öðrum fjárhagslegum toga. Um vanhæfi til meðferðar einstaks máls fer að öðru leyti eftir meginreglum stjórnsýslulaga. Stjórnarmönnum og eftir atvikum starfsmönnum er skylt að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfni skv. framantöldu.

4.12. Stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra eða á kostnað sjóðsins. Þeir skulu einnig gæta þagmælsku um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu fyrir lífeyrissjóðinn og varða kann hagsmuni einstaklinga eða fyrirtækja og annað það er leynt á að fara eftir eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi eða horfið úr stjórn.

4.13. Hvorki stjórnarmenn né starfsmenn sjóðsins skulu sitja í stjórnum atvinnufyrirtækja í umboði hans. Þetta gildir þó ekki um fyrirtæki sem stofnuð eru til að sinna sérstökum þáttum í starfsemi sjóðsins né heldur áhættufjármagnsfyrirtækjum sem sjóðurinn á hluti í. Sjóðstjórn skal setja sjóðnum hluthafastefnu sem leggi meginlínur um það hvernig sjóðurinn stendur að viðskiptum á hlutabréfamarkaði og um afstöðu hans til félaga sem fjárfest hefur verið í.

5. Ársfundur og störf fulltrúaráðs

5.1. Ársfundur hefur æðsta vald í málefnum sjóðsins, ef ekki er öðruvísi ákveðið í samþykktum þessum. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti.

5.2. Ársfund sjóðsins skal halda fyrir lok apríl ár hvert. Stjórn sjóðsins getur boðað til aukafundar þegar þurfa þykir. Skylt er stjórn að boða til aukafundar ef aðildarsamtök sjóðsins krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Stjórnin skal boða til fundar með skriflegu fundarboði til aðildarsamtaka sjóðsins með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Þá skal stjórnin auk þess auglýsa fundinn í dagblaði, útvarpi eða á annan sannanlegan hátt með a.m.k. 7 daga fyrirvara.

5.3. Innan lífeyrissjóðsins starfar fulltrúaráð að jöfnu skipað fulltrúum samtaka launamanna og atvinnurekenda sem að sjóðnum standa. Aðildarsamtök sjóðsins tilnefna fulltrúa sína í fulltrúaráð lífeyrissjóðsins og fara þeir með atkvæði á ársfundi og öðrum fundum sjóðsins í umboði aðildarsamtakanna og í samræmi við ákvæði samþykkta þessara. Skipunartími fulltrúa er tvö ár. Við skipan fulltrúaráðs skal leitast við að það endurspegli þær starfs- og atvinnugreinar sem tryggja hagsmuni með iðgjaldsgreiðslum til sjóðsins. Stéttarfélög sem að sjóðnum standa tilnefna alls 80 fulltrúa til setu í fulltrúaráði. Fjöldi fulltrúa einstakra aðildarsamtaka skal vera í samræmi við vægi iðgjaldsgreiðslna félagsmanna þeirra til sjóðsins og skal það reiknað út annað hvert ár miðað við iðgjaldsgreiðslur félagsmanna hlutaðeigandi félaga næsta ár á undan og ákvarðar sá útreikningur fjölda fulltrúa einstakra aðildarfélaga/samtaka í fulltrúaráðinu næstu tvö ár þaðan í frá. Samtök atvinnulífsins tilnefna allt að 80 fulltrúa til setu í ráðinu. Tilkynna skal um tilnefningu í fulltrúaráð minnst 14 dögum fyrir lok yfirstandandi skipunartímabils og öðlast tilnefning gildi við upphaf ársfundar og gildir fram að ársfundi að tveimur árum liðnum. Heimilt er fulltrúaráðsmanni að fara með umboð tveggja annarra fulltrúa á fundum fulltrúaráðsins og á ársfundi.

5.4. Stjórn sjóðsins skal kalla saman fulltrúaráðið tvisvar á ári, að hausti og í aðdraganda ársfundar, þar sem rædd eru málefni sjóðsins, lykiltölur úr afkomu og framvinda fjárfestingarstefnu kynnt. Heimilt er stjórn sjóðsins að ákveða að fundur fulltrúaráðs að hausti sé opinn sjóðfélögum. Á fundi fulltrúaráðs í aðdraganda ársfundar skulu auk þess breytingar á samþykktum kynntar ef við á og starfskjarastefna kynnt. Fulltrúar samtaka launamanna skulu jafnframt staðfesta tilnefningar frá tilnefningarnefnd á fulltrúum sjóðfélaga til stjórnar sjóðsins. Þá skulu fulltrúar atvinnurekenda í fulltrúaráði staðfesta tilnefningu Samtaka atvinnulífsins til stjórnar sjóðsins.

5.5. Eigi síðar en þremur mánuðum fyrir ársfund skulu fulltrúar stéttarfélaga í fulltrúaráði sjóðsins skipa a.m.k. þriggja manna nefnd sem gera skal tillögu um frambjóðendur fulltrúa sjóðfélaga til stjórnar og varamanna þeirra. Tillagan skal m.a. taka mið af uppruna sjóðsins og hafa það að markmiði að þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafi tilsvarandi aðkomu að stjórn sjóðsins. Tilnefningarnefndin skal setja sér eigin starfsreglur. Samtök atvinnulífsins skulu jafnframt starfrækja tilnefningarnefnd sem undirbýr tilnefningar Samtaka atvinnulífsins um fulltrúa atvinnurekenda til stjórnar og varamenn þeirra. Tilnefningarnefndir þessar skulu hafa formlegt samráð sín á milli með það að markmiði að tryggja að tillögur hvors aðila um sig séu með þeim hætti að stjórn verði í heild þannig samsett hverju sinni að hún búi yfir nægilegri þekkingu og reynslu til þess að rækja hlutverk sitt og geti sinnt málefnum sjóðsins af skilvirkni og heilindum.

5.6. Innan lífeyrissjóðsins starfar fjögurra manna nefnd um laun stjórnarmanna sem undirbýr og leggur fram tillögu til ársfundar um laun stjórnar fyrir komandi ár. Ársfundur kýs þrjá fulltrúa í nefndina. Nefndarmenn sem ársfundur kýs geta ekki verið úr hópi stjórnarmanna. Jafnframt situr stjórnarformaður sjóðsins hverju sinni í nefndinni. Nefndin skal hafa hliðsjón af því að stjórnarlaun endurspegli ábyrgð, sérþekkingu, reynslu og þann tíma sem verja þarf til stjórnarstarfa. Einn nefndarmanna skal kosinn af fulltrúum stéttarfélaga í fulltrúaráði og annar af fulltrúum samtaka atvinnurekenda í fulltrúaráði. Sá þriðji skal kosinn til skiptis af fulltrúum stéttarfélaga og fulltrúum samtaka atvinnurekenda í fulltrúaráði. Fulltrúar þess hóps sem ekki skipar stjórnarformann næstkomandi kjörtímabil kýs þriðja fulltrúann hverju sinni.

5.7. Við atkvæðagreiðslu ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum. Þó er heimilt að óska eftir skiptri atkvæðagreiðslu þannig að fulltrúar samtaka atvinnu-rekenda og stéttarfélaga greiða atkvæði hvor í sínu lagi og þarf þá tilskilinn meirihluta í báðum hlutum fulltrúaráðsins svo að samþykkt sé lögmæt.

5.8. Á dagskrá skulu vera eftirtaldir dagskrárliðir:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Kynning ársreiknings.
  3. Gerð grein fyrir tryggingafræðilegri úttekt.
  4. Gerð grein fyrir fjárfestingarstefnu sjóðsins.
  5. Gerð grein fyrir hluthafastefnu sjóðsins.
  6. Starfskjarastefna til staðfestingar.
  7. Kosning stjórnar og varamanna. Fulltrúar stéttarfélaga í fulltrúaráði skulu kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn. Fulltrúar samtaka atvinnurekenda skulu tilkynna um staðfestingu þeirra á tveimur aðalmönnum og einum varamanni í stjórn á grundvelli tilnefningar. Gert skal hlé á fundi meðan kosning skv. þessum lið fer fram.
  8. Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins þegar slíkar tillögur liggja fyrir. Um tillögur til breytingar á samþykktum sjóðsins fer samkvæmt ákvæðum 23. greinar.
  9. Kosning þriggja nefndarmanna í nefnd um laun stjórnarmanna.
  10. Ákvörðun launa stjórnarmanna.
  11. Kjör endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis.
  12. Kjör utanaðkomandi aðila í endurskoðunar- og áhættunefnd ef stjórn leggur til að utanaðkomandi aðili taki sæti í endurskoðunarnefnd.
  13. Önnur mál. Tillögur til ályktunar, sem taka á fyrir á ársfundi, þurfa að berast stjórn sjóðsins eigi síðar en viku fyrir ársfund.

6. Reikningar og endurskoðun

6.1. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og skal ársreikningurinn gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

7. Tryggingafræðileg athugun

7.1. Stjórn lífeyrissjóðsins skal árlega láta reikna út fjárhag samtryggingardeildar sjóðsins og skal niðurstaða athugunarinnar vera hluti af reikningsskilum lífeyrissjóðsins um hver áramót. Í niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar skal gera grein fyrir kostnaði vegna þeirra lágmarksréttinda sem sjóðurinn er skuldbundinn að veita, sbr. ákvæði greinar 2.2. Einnig skal gerð grein fyrir kostnaði vegna þeirra viðbótarréttinda, sem sjóðurinn kann að veita umfram ofangreint lágmark. Athugun skal framkvæmd af tryggingastærðfræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hafa viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs. Fyrir 1. júlí ár hvert skal senda Fjármálaeftirlitinu hina tryggingafræðilegu athugun.

7.2. Hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Réttindatöflur sjóðsins skulu árlega endurskoðaðar og breytt ef tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins gefa tilefni til í samræmi við grein 10.2, en um breytingar á áunnum réttindum fer eftir ákvæðum gr. 7.3. og 7.4.

7.3. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að eignir sjóðsins eru meira en 10% umfram lífeyris-skuldbindingar hans miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, skal stjórn sjóðsins að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing, gera tillögur til ársfundar um hækkun lífeyrisréttinda. Sama gildir ef þessi munur hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Stjórn sjóðsins er einnig heimilt að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins og miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, að leggja til við ársfund að auka áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Staða sjóðsins, það er mismunur eigna og skuldbindinga samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt, skal þó ætíð vera jákvæð eftir aukningu réttinda, bæði þegar litið er til áunninna réttinda og heildarréttinda. Ársfundur tekur endanlega ákvörðun og er yfirlit yfir ákvarðanir samkvæmt þessari grein í viðauka B.

7.4. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að eignir sjóðsins eru meira en 10% lægri en lífeyrisskuldbindingar hans, miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, skal stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing, gera tillögur til ársfundar um lækkun lífeyrisréttinda, enda finnist ekki aðrar leiðir til að bæta fjárhag sjóðsins. Sama gildir ef þessi munur hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Stjórn sjóðsins er einnig heimilt, að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins og miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur og að teknu tilliti til eðlilegra varúðarsjónarmiða, að leggja til við ársfund að lækka áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Ársfundur tekur endanlega ákvörðun og er yfirlit yfir ákvarðanir samkvæmt þessari grein í viðauka B.

7.5. Nú leiðir tryggingafræðileg athugun í ljós, að fjárhagur sjóðsins er svo ótryggur að við svo búið má ekki standa og ætla má, miðað við tryggingafræðilegar forsendur, að eignir hans muni ekki duga fyrir skuldbindingum miðað við þau lágmarksréttindi, sem sjóðnum er skylt að veita, sbr. grein 2.2. og skal stjórn sjóðsins þá boða til aukaársfundar eins fljótt og verða má og eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hin tryggingafræðilega niðurstaða lá fyrir. Á fundinum skal stjórn sjóðsins leggja fram tillögur um sameiningu við annan samtryggingar-sjóð eða lokun sjóðsins. Jafnframt skal stjórn sjóðsins leggja fram tillögur um hjá hvaða lífeyrissjóði tryggja beri sjóðfélögum lífeyrisrétt. Tillögurnar skal afgreiða með sama hætti og tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins.

8. Ávöxtun fjár sjóðsins

8.1. Stjórn lífeyrissjóðsins mótar fjárfestingastefnu hans og sér um að ráðstöfun fjármuna sé í samræmi við hana. Stjórninni er skylt að ávaxta fjármuni sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til áhættu og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka deild sjóðsins.

8.2. Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins skal taka mið af ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nú VII. kafla laga nr. 129/1997, og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum og skulu fjárfestingar lífeyrissjóðsins á hverjum tíma vera innan þeirra marka sem lög og reglur setja, bæði hvað varðar efni og form, svo og innan þeirra takmarka sem samþykkt fjárfestingarstefna setur.

8.3. Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu, þar sem sett eru viðmið að hvaða marki skuli fjárfesta í einstökum verðbréfum. Þar skal ennfremur koma fram markmið um dreifingu eigna, tímalengd krafna, myntsamsetningu, seljanleika eigna og aðrar þær viðmiðanir, sem stjórn sjóðsins telur að endurspegli gleggst fjárfestingarstefnu hans. Á ársfundi sjóðsins skal kynna fjárfestingarstefnuna, sbr. 5.5.4.

8.4. Heimilt er sjóðnum að eiga fasteign fyrir skrifstofur sínar.

9. Iðgjöld

9.1. Iðgjald til samtryggingardeildar lífeyrissjóðsins skal vera skv. kjara- eða ráðningarsamningi, ekki lægra en 12% af launatekjum sjóðfélaga 16 til 70 ára sem tilgreind eru í greinum 9.2. eða 9.3., og mynda þau rétt til samtryggingarverndar samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa iðgjaldi umfram 12% af iðgjaldsstofni í tilgreinda séreignardeild, enda sé gert ráð fyrir slíku í kjara- eða ráðningarsamningi, sbr. gr. 22. Hámark iðgjaldshlutfalls sem greitt verður af til samtryggingardeildar lífeyrissjóðsins skal vera jafnhátt því sem hæst er um samið í kjarasamningi aðildarsamtaka sjóðsins. Sjóðfélaga er heimilt að hækka eða lækka iðgjald til samtryggingarverndar frá því sem kjara- eða ráðningarsamningur segir til um innan ofangreindra marka enda sé gerður um það sérstakur skriflegur samningur á milli sjóðfélaga og lífeyrissjóðsins. Lífeyrissjóðurinn setur og gefur út skilmála um slíkan samning.

9.2. Iðgjald samkvæmt 9.1. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Ennfremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttar-félaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlofsgreiðslur samkvæmt lögum um fæðingarorlof.

9.3. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 58. gr. þeirra laga. Um iðgjaldshlutfall fer eftir grein 9.1.

9.4. Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. dagur næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan mánaðar frá lokum iðgjaldsgreiðslu-tímabils, skal innheimta vanskilavexti skv. ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna lífeyris-sjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða starfsmenn þeirra hafa látið af störfum. Launagreiðendur og sjálfstæðir atvinnurekendur skulu senda skilagrein með iðgjaldinu þar sem m.a. koma fram iðgjalds-hlutföll og iðgjöld hvers aðila samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi ásamt því iðgjaldshlutfalli og iðgjaldi sem skal renna til samtryggingar. Lífeyrissjóðurinn setur og gefur út reglur um form skilagreinarinnar. Liggi ekki annað fyrir skal við innheimtu iðgjalds miðað við að iðgjaldshluti launamanns sé 4% en launagreiðanda það sem umfram er, þó að lágmarki 8%.

9.5. Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

9.6. Iðgjöld sjóðfélaga, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil, sbr. 9.7. og 9.9. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og Ábyrgðarsjóður launa ber ekki ábyrgð á, skv. 6. og 10. gr. laga nr. 88/2003. (Um er að ræða stjórnarmenn og stjórnendur gjaldþrota fyrirtækis, maka þeirra og skyldmenni, skv. nánari reglum stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa.)

9.7. Tvisvar á ári, í mars og september, skal senda sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Sjóðnum er heimilt að skila yfirlitum með rafrænum hætti til sjóðfélaga óski þeir eftir því eða ef slíkt er heimilt samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjalda-kröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Samhliða yfirliti þessu skal eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri.

9.8. Senda skal lokaaðvörun til launagreiðenda, ef iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum hans hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga. Formlega innheimtu skal hefja innan 15 daga frá útsendingu lokaaðvörunar eða fyrr sé rökstudd ástæða til að ætla að iðgjalds-krafa sé ótrygg.

9.9. Iðgjöld í vanskilum sem sanna má með innsendum launaseðlum skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðenda. Lokaaðvörun til launagreiðenda skal senda innan 90 daga frá dagsetningu yfirlits samkvæmt 9.7. Heimilt er lífeyrissjóðnum að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil. Um innheimtu fer að öðru leyti eftir 9.8.

9.10. Öllum innborgunum launagreiðenda, hvort heldur sem þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, skal ráðstafa til greiðslu elstu ógreiddra iðgjalda og vanskilavaxta launagreiðenda og skapa réttindi samkvæmt því. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í því tilfelli þegar hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum sbr. grein 9.8. fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þess tímabils. Ennfremur ef lög kveða á um annað samanber meðferð mála á greiðslustöðvunartímabili launagreiðenda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskila-vaxta á hana.

9.11. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að iðgjöld samkvæmt 9.1. skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans, sbr. gr. 11.7. b. Þessari skiptingu iðgjalda skal hætt að ósk sjóðfélaga, enda framvísi hann skilríkjum um að fjárfélagi hans og maka hans hafi verið slitið eða aðilar hafi gert með sér nýtt samkomulag.

9.12. Framlagi hvers árs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, sbr. 18. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, skal ráðstafa í samræmi við ákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að ávinnsla nýrra réttinda og lífeyrir vegna geymdra réttinda hækki á komandi ári eins og nánar er tilgreint hér:

a. Auka skal réttindainnvinnslu sjóðfélaga sem nemur 4,0% iðgjalda þeirra. Réttindi skv. ákvæði þessu reiknast að fullu skv. reglum um aldursháða ávinnslu. Þessi réttindi skal auðkenna sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins og veita þau ekki rétt til framreiknings.

b. Greiða skal viðbótarlífeyri til lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega sem nemur 2,5% af lífeyri þeirra. Viðbótarlífeyririnn greiðist mánaðarlega eins og annar lífeyrir. Þessi viðbótarlífeyrir skal merktur sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins.

Framangreint framlag til aukningar réttindaávinnslu og lífeyrisgreiðslna skulu hverju sinni að hámarki nema örorkuframlagi ársins. Tryggingastærðfræðingur sjóðsins skal árlega meta skuldbindingar sjóðsins skv. framangreindri reglu miðað við örorkuframlag ársins og vænt iðgjöld og lífeyrisgreiðslur á komandi ári og gera tillögu um breytingu á hundraðshluta viðbótarávinnslu og lífeyris, gefi matið til þess tilefni. Skal sjóðstjórn þá leggja tillögur að breytingum samþykkta lífeyrissjóðsins fyrir ársfund hans svo tryggt sé að örorkuframlagið dugi fyrir skuldbindingum skv. a. og b. lið hér að framan.

10. Grundvöllur lífeyrisréttinda.

10.1. Með greiðslum iðgjalda aflar sjóðfélagi sér réttinda til elli- og örorkulífeyris og maka sínum og börnum rétt til maka- og barnalífeyris eftir því sem kveðið er á um í 11.-14. gr. og á grundvelli þeirra réttindatafla sem fram koma í viðauka A við samþykktir þessar og teljast hluti þeirra. Réttindi sjóðfélaga til lífeyris eru reiknuð í íslenskum krónum og ráðast réttindi af því iðgjaldi sem greitt er í lífeyrissjóðinn hverju sinni. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins, sbr. þó sérreglu í gr. 10.3. Réttindin eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá þeim launamánuði sem iðgjald er greitt af. Helstu tryggingafræðilegu forsendur sem réttindatöflur sjóðsins byggja á koma fram í viðauka A. Lágmarkstryggingavernd miðast við að innborgun hefjist við 20 ára aldur.

10.2. Nú breytast tryggingarfræðilegar forsendur sjóðsins í þeim mæli að mati tryggingarstærðfræðings hans að tilefni sé til breytinga á réttindatöflum og skal hann þá gera tillögu að nýjum réttindatöflum sem endurspegli breyttar forsendur og leggja fyrir stjórn sjóðsins. Samþykki stjórn tillöguna skal hún lögð fyrir næsta ársfund eða aukaársfund til staðfestingar. Að uppfylltum skilyrðum laga og samþykkta öðlast ný réttindatafla gildi fyrir ávinnslu réttinda í sjóðnum skv. samþykkt ársfundar eða aukaársfundar þar um.

10.3.1. Sjóðfélaga sem á réttindi í sjóðnum m.v. árslok 2004 er heimilt að greiða til hans iðgjöld allt að tilteknu hámarki með jafnri réttindaávinnslu í jafn marga mánuði og viðkomandi hafði greitt iðgjöld til sjóðsins fyrir 42 ára aldur í lok árs 2004. Hafi hann greitt iðgjöld í full 5 ár á umræddu tímabili á hann rétt á að greiða allt að viðmiðunariðgjaldi í jafnri ávinnslu til 67 ára aldurs. Þessi jafna ávinnsla miðast við meðaltal réttindaávinnslu aldursáranna 25 til og með 64 ára skv. töflu I í viðauka A, þar sem meðaltalið er birt sérstaklega. Hámarksiðgjald til jafnrar ávinnslu á hverju almanaksári, viðmiðunariðgjald, skal ákveðið fyrir hvern sjóðfélaga, sem er á aldrinum 25 til og með 66 ára, jafnhátt því iðgjaldi sem hann greiddi til sjóðsins á árinu 2003 eða síðasta árið sem iðgjald barst sjóðnum hans vegna, hafi það verið fyrr. Viðmiðunariðgjaldið skal þó ekki taka mið af iðgjaldsgreiðslum umfram 10% af iðgjaldsstofni. Hafi iðgjaldsgreiðslur það ár ekki endurspeglað venjubundnar greiðslur, s.s. vegna starfshléa eða að greiðslum hafi verið hætt á árinu, skal eftir umsókn sjóðfélaga miða útreikning á viðmiðunariðgjaldi við iðgjaldsgreiðslur næsta ár á undan sem stjórn sjóðsins telur gefa sanngjarna mynd af reglulegum iðgjaldsgreiðslum sjóðfélagans. Viðmiðunar-iðgjald skv. framanskráðu tekur breytingum í hlutfalli við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá viðmiðunarári til greiðsluárs hverju sinni.

10.3.2. Öll iðgjöld sem berast sjóðnum á ári hverju vegna sjóðfélaga sem er 25 ára eða eldri í árslok 2004 og hefur skilgreint viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu, skulu færast í jafnri réttindaávinnslu allt þar til viðmiðunariðgjaldinu er náð eða útreiknuðu iðgjaldsgreiðslu-tímabili er lokið. Sjóðurinn skal sérstaklega gæta þess að réttindaávinnsla þeirra sem ekki eiga rétt á jafnri réttindaávinnslu til 67 ára aldurs skv. 10.3.1. sé samkvæmt þeim ávinnslureglum er gefa meiri rétt á hlutaðeigandi tímabili. Iðgjald sem berst umfram framangreint viðmiðunariðgjald myndar réttindi samkvæmt aldursháðri réttindatöflu sjóðsins. Þegar öll iðgjöld ársins hafa borist vegna sjóðfélaga sem á skilgreint viðmiðunar-iðgjald skal skipta því á einstaka mánuði í sömu hlutföllum og þeim iðgjöldum sem hafa borist. Sá hluti iðgjalda sem er umfram viðmiðunariðgjaldið ávinnur honum réttindi skv. töflu I í viðauka A.

10.3.3. Við framreikning réttinda skv. ákvæðum 12.-14. gr. skal reikna með jafnri ávinnslu í samræmi við hlutdeild viðmiðunariðgjalds sjóðfélagans af þeim iðgjöldum sem lögð eru til grundvallar framreikningi. Í framreikningi skal viðmiðunariðgjald sjóðfélaga miðast við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar eins og hún er í viðmiðunarmánuði framreiknings.

10.3.4. Lífeyrissjóðurinn skal upplýsa sjóðfélaga um útreikning á viðmiðunariðgjaldi til jafnrar réttindaávinnslu skv. framanskráðu innan þriggja mánaða frá því að hann greiðir fyrst til sjóðsins eftir 1. júní 2005. Telji sjóðfélagi viðmiðunarárið ekki gefa sanngjarna mynd af venjubundnum iðgjaldsgreiðslum hans getur hann óskað eftir því við sjóðstjórn að annað ár verði lagt til grundvallar útreikningi viðmiðunariðgjalds. Ósk um endurskoðun viðmiðun-ariðgjalds skal berast sjóðnum í síðasta lagi 9 mánuðum eftir að sjóðfélaginn fékk tilkynningu um útreikning viðmiðunariðgjalds.

10.3.5. Ekki skal reikna viðmiðunariðgjald fyrir sjóðfélaga sem eru yngri en 25 ára eða eldri en 70 ára þann 1. júní 2005. Sjóðfélagi getur hvenær sem er ákveðið að allt iðgjald hans færist til réttinda eftir aldursháðri réttindatöflu. Ákvörðun sjóðfélaga þar um öðlast gildi frá upphafi þess árs sem tilkynning hans berst sjóðnum og er sú ákvörðun óafturkræf. Réttur til jafnrar ávinnslu skv. ákvæðum þessa kafla telst frá gildistöku samþykkta þessara eða frá þeim tíma er sjóðfélaga fyrst er heimilt að greiða til sjóðsins vegna launatekna af vinnu á starfssviði hans og fellur niður, sé hann ekki nýttur án eðlilegra skýringa að mati sjóðstjórnar.

10.3.6. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samkomulag við aðra lífeyrissjóði innan Landssamtaka lífeyrissjóða sem hafa miðað við jafna réttindaávinnslu á árinu 2003 um gagnkvæma viðurkenningu iðgjaldsgreiðslna til útreiknings viðmiðunariðgjalds skv. framanskráðu. Þá er sjóðunum heimilt að halda samræmda tölvuskrá um rétt manna til jafnrar ávinnslu og kveða á um það hvernig sá réttur deilist niður sé iðgjald greitt til fleiri sjóða.

10.4. Áunnin lífeyrisréttindi eins og þau eru skilgreind í 11.-14. gr. og reiknuð samkvæmt greinum 10.2. og 10.3. skulu varðveitt í samræmi við gildandi reglur hverju sinni, þannig að lífeyrisgreiðslur verði samkvæmt uppsöfnuðum réttindum hvers réttindatímabils. Framreikningur skal hverju sinni vera samkvæmt þeim reglum sem gilda þegar réttur til lífeyris varð virkur. Samtala lífeyrisréttinda er summa áunninna lífeyrisréttinda og framreiknaðra lífeyrisréttinda, ef slík réttindi hafa verið úrskurðuð. Framreiknuð lífeyrisréttindi teljast ekki með áunnum lífeyrisréttindum nema að því marki sem þau hafa fallið til frá úrskurði framreiknings, sbr. gr. 12.11.a. og 13.6.a. og minnkar framreiknaði hlutinn þá sem því nemur. Þegar stjórn sjóðsins ákveður aukningu réttinda skulu þau vera greind frá öðrum réttindum. Réttindaaukning er ekki tekin með í framreikningi en hún reiknast að fullu í áunnum réttindum. Komi til skerðingar á áunnum réttindum sjóðfélaga skal fara með réttindaskerðinguna á sama hátt og réttindaaukningu nema að skerðingin kemur til frádráttar áunnum réttindum. Breyting réttinda skv. framanskráðu skal færð í réttindabókhaldi sjóðsins miðað við síðasta mánuð þess tímabils sem tryggingafræðileg úttekt skv. 7. kafla samþykkta þessara tekur til. Hækkun eða lækkun lífeyrisgreiðslna getur fyrst tekið gildi frá og með næsta mánuði eftir að staðfesting fjármálaráðuneytis þar að lútandi liggur fyrir.

10.5. Áunnin geymd lífeyrisréttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóðnum Framsýn og Lífeyrissjóði sjómanna þann 31. maí 2005 skulu varðveitt skv. þeim réttindareglum sem giltu þann dag í hlutaðeigandi lífeyrissjóðum. Sama gildir um áunnin geymd lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði Vestfirðinga þann 31.12.2014. Um áhrif frestunar eða flýtingar á fjárhæð lífeyris skv. framansögðu fer skv. meginreglu 2. ml. í gr. 11.2. og 11.3. eins og sýnt er í töflu III í viðauka A.

10.6. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á ellilífeyristryggingar og áskilur sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykkta þessara.

11. Ellilífeyrir

11.1. Sjóðfélagi á aldrinum 60 til 80 ára, sem á réttindi í sjóðnum skv. 10. grein, á rétt á ævilöngum ellilífeyri. Sjóðfélagi sem hefur töku ellilífeyris 67 ára gamall fær réttindi samkvæmt töflu I.

11.2. Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris eftir 67 ára aldur hækkar upphæð ellilífeyris samkvæmt töflu I eins og segir í töflu II fyrir hvern mánuð sem líður frá 67 ára aldri þar til taka lífeyris hefst. Hækkun ellilífeyrisréttindanna miðast við það að verðmæti ellilífeyrisins til æviloka sé hið sama og hjá þeim sem hefja töku ellilífeyris 67 ára miðað við tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins. Þannig getur sjóðfélagi frestað töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun mánaðalegra ellilífeyrisgreiðslna.

11.3. Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur þá lækkar upphæð ellilífeyris samkvæmt töflu I eins og segir í töflu II fyrir hvern mánuð sem sjóðfélagann vantar upp á 67 ára aldur þegar taka lífeyris hefst. Lækkun ellilífeyrisréttindanna miðast við það að verðmæti ellilífeyrisins til æviloka sé hið sama og hjá þeim sem hefja töku ellilífeyris 67 ára miðað við tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins.

11.4. Við töku ellilífeyris ráðstafar sjóðfélagi elli- og örorkulífeyrisréttindum sínum endanlega og á því ekki sjálfstæðan rétt til örorkulífeyris eftir það. Hafi hann áunnið sér viðbótarrétt til ellilífeyris með iðgjaldsgreiðslum eftir að hann hóf töku lífeyris skal endurúrskurða honum ellilífeyri samkvæmt umsókn þess efnis, þó ekki oftar en árlega. Við 70 ára aldur skal ellilífeyrir vegna slíks viðbótarréttar endurúrskurðaður án umsóknar.

11.5. Við 70 ára, 75 ára og 80 ára aldur skal senda sjóðfélögum sem ekki hafa hafið töku ellilífeyris upplýsingar um lífeyrisréttindi þeirra og hvernig sækja megi um réttindin.

11.6. Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku hálfs ellilífeyris hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna endanlega, sbr. grein 11.4. Grein 11.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Grein 11.2 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.

11.7. Ellilífeyrir er greiddur sem föst fjárhæð á mánuði til dauðadags samkvæmt uppsöfnuðum réttindum. Réttur til ellilífeyris fellur niður við andlát.

11.8. Sjóðfélagi getur ákveðið að skipta ellilífeyrisréttindum á milli sín og maka síns í samræmi við 14. grein laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þannig:

    1. að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka, og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Þessi ákvörðun skal tekin áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og þá háð því að sjúkdómar eða heilsufar sjóðfélaga hafi ekki dregið úr lífslíkum. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.
    2. að iðgjald vegna hans, sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi, skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til ellilífeyris skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu. Örorku- og makalífeyrisréttindi sjóðfélagans taka eftir sem áður mið af óskiptum iðgjaldsstofni. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.
    3. að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Viðkomandi lífeyrissjóður skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrvernadi maki sem nýtur slíkra greiðslna hins vegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.

12. Endurhæfingar- og örorkulífeyrir

12.1. Sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi, sem talið er að svari til 50% örorku eða meira á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi skv. 10. gr. og nánari skilmála þessa kafla. Auk áunninna réttinda skv. framanskráðu á sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri miðað við framreikning á því, hvað ætla má að hefðu orðið réttindi hans við áframhaldandi iðgjalds-greiðslur skv. nánari skilmálum þessa kafla. Skilyrði framreikningsréttar eru að sjóðfélaginn hafi:

a. greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. kr. 60.000 hvert þessara þriggja ára. Hafi sjóðfélagi unnið reglubundið hlutastarf á tímabilinu skal miða við að lágmarksiðgjald hafi verið a.m.k. kr. 40.000.

b. greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum.

c. orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.

d. ekki sjálfur átt sök á orkutapi vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Hafi sjóðfélagi skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til framreiknings í þessum sjóði, ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars sem leitt hafi til orkutapsins.

12.2. Séu sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi að hann hefur ekki getað uppfyllt skilyrði gr. 12.1. um iðgjaldsgreiðslutíma, er sjóðstjórn heimilt að stytta áskilinn tíma í tvö undanfarandi almanaksár, enda verði talið fullvíst að orsök örorku verði ekki rakin til tíma aftur fyrir orkutap. Hafi sjóðfélagi hins vegar öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði allt að 24 mánuði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir sex mánuði frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til sjóðsins.

12.3. Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 14.4. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið, sbr. a) lið gr. 12.6. um framreikning. Heimilt er að miða við meðaltal tekna síðustu 3 almanaksárin fyrir orkutapið vegna sjóðfélaga sem fengið hefur úrskurðan örorkulífeyri fyrir 1. janúar 2006 sbr. einnig a) lið gr. 12.6. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjurnar taka þeim breytingum sem verða á launavísitölu. Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Í úrskurði um lífeyri skal greina hvaða launatekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað. Örorkulífeyrisþega er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar skv. launaframtali, sé þess óskað. Heimilt er að fresta eða fella niður greiðslur lífeyris veiti sjóðfélagi ekki umbeðnar upplýsingar.

12.4. Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Mat á missi starfsorku skal miðast við þær heilsufarslegu breytingar sem sjóðfélagi hefur orðið fyrir eftir að hann hóf iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skal örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal orkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skal síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telur ástæðu til.

12.5. Þegar skilyrði 12.1. um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 10. gr. að viðbættum lífeyri sem svarar til þeirra réttinda sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér með iðgjaldsgreiðslum fram til 65 ára aldurs, reiknað samkvæmt grein 12.6. Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs sbr. þó ákvæði samkomulags um samskipti lífeyrissjóða.

12.6. Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt á framreikningi réttinda samkvæmt gr. 12.5., skal um þann framreikning fara sem hér segir:

a. Reikna skal meðaltal iðgjalda sjóðfélaga næstu fjögur almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórn rökstudda ástæðu til að ætla að þetta fjögurra ára meðaltal endurspegli ekki venjubundnar greiðslur, er henni heimilt að leggja til grundvallar iðgjaldsgreiðslur 8 ár aftur í tímann. Við útreikning meðaliðgjalds þessa tímabils skal hvorki taka tillit til þess árs sem lægst iðgjöld bárust vegna sjóðfélaga né þess árs sem iðgjaldsgreiðslur voru hæstar og reikna meðaliðgjaldið því af iðgjöldum þeirra 6 ára sem þá standa eftir. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld í skemmri tíma en 8 ár skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. Lífeyrisréttur sjóðfélaga vegna framreiknings ákvarðast jafn þeim réttindum, sem þetta meðaliðgjald, greitt til 65 ára aldurs, myndi hafa veitt honum skv. töflu I í viðauka A. Nemi meðaliðgjaldið hærri fjárhæð en kr. 320.000 skal við framreikning miða við meðaltalið í allt að 10 ár en síðan og til 65 ára aldurs skal í stað meðaltalsins reikna með kr. 320.000 í árlegt iðgjald.

b. Hafi sjóðfélagi fyrir orkutapið látið af því starfi sem iðgjöld hans byggðu á, þannig að tekjusaga fortíðar þyki að mati sjóðstjórnar ekki gefa trúverðuga vísbendingu um tekjutap hans í framtíðinni, er sjóðstjórn heimilt að leggja til grundvallar mati á tekjutapi skv. gr. 12.5. áætlaðar framtíðartekjur umsækjanda í nýju starfi að hálfu leyti á móti útreikningi skv. a. lið, sem hafi þá 50% vægi við útreikning á tekjuviðmiði til framreiknings.

c. Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular að þær hafa fallið niður eða verið lægri en kr. 42.000 fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri og skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára, sem árlegar iðgjaldsgreiðslur hafa verið lægri en kr. 42.000 og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Sama gildir ef stopular iðgjaldagreiðslur stafa af undanskoti frá greiðsluskyldu til lífeyrissjóðsins.

12.7. Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið.

12.8. Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Ekki er greiddur örorkulífeyrir ef orkutap hefur varað skemur en í sex mánuði.

12.9. Skylt er öryrkja sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta sjóðnum í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris og ef nauðsynlegt er, gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins. Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi skal umsókn hans vísað frá. Heimilt er að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans, enda sé þess gætt að slík endurhæfing standi honum til boða og aðstæður viðkomandi leyfi að hann nýti sér hana. Endurmat á orkutapi skal fara fram að lokinni endurhæfingu.

12.10. Við mat á umsókn um örorkulífeyri skal horft til þess hvernig styðja megi sjóðfélagann til endurhæfingar þannig að hann öðlist á ný færni til að sinna tekjuskapandi viðfangefnum í samræmi við starfsgetu sína og hæfni. Skal trúnaðarlæknir sjóðsins, eða eftir atvikum annar sérfróður þjónustuaðili sem sjóðurinn velur, leggja mat á það hvort líklegt sé að skipulögð starfsendurhæfing muni skila árangri og þá gera áætlun um endurhæfinguna og umfang hennar. Skal sjóðurinn þá ákveða umsækjanda endurhæfingarlífeyri, jafnháan þeim örorkulífeyri sem hann á rétt á eftir ákvæðum þessa kafla samþykkta sjóðsins. Sé endurhæfingarlífeyrir úrskurðaður skal hann ákveðinn fyrir minnst sex mánuði í senn og í allt að þrjú ár samfellt hafi endurhæfing ekki borið tilætlaðan árangur fyrr. Ef sérstaklega stendur á er heimilt að framlengja tímabil endurhæfingar allt að tveimur árum, telji sjóðurinn að fengnu áliti trúnaðarlæknis að enn sé framfara að vænta við áframhaldandi endurhæfingu. Launatekjur sjóðfélaga sem þátt tekur í starfsendurhæfingu skerða ekki endurhæfingarlífeyri sem úrskurðaður hefur verið, enda séu heildartekjur hans á tímabili endurhæfingar ekki umfram tapaðar tekjur sbr. gr. 12.3. Endurmat á orkutapi skal fara fram eftir því sem árangur af endurhæfingu gefur tilefni til. Telji sjóðurinn að fengnu áliti trúnaðarlæknis sjóðsins að þess sé ekki að vænta að orkutap sjóðfélaga gangi svo til baka að hann fái öðlast starfsgetu á ný, að hluta eða öllu, skal úrskurða örorkulífeyri í stað endurhæfingarlífeyris.

Synji sjóðfélagi þátttöku í endurhæfingu eða sinni henni ekki með fullnægjandi hætti getur sjóðurinn fellt niður greiðslur endurhæfingarlífeyris skv. ákvæði þessu. Örorkulífeyrir verður því aðeins úrskurðaður að endurhæfing sé ekki líkleg til að skila aukinni starfsgetu að mati trúnaðarlæknis sjóðsins.

12.11. Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.

12.12. Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og eins ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum gr. 12.1. er ekki lengur fullnægt. Áunnin réttindi örorkulífeyrisþega skulu hverju sinni nema áunnum réttindum við fyrsta úrskurð örorku að viðbættum réttindum vegna:

a. framreiknaðra réttinda í hlutfalli við hundraðshluta örorkulífeyris af hámarks-örorkulífeyri eins og hann hefur verið hverju sinni.

b. aukningar- eða skerðingarréttinda sem kann að hafa verið úthlutað eftir að taka örorkulífeyris hófst.

c. réttinda sem örorkulífeyrisþeginn kann að hafa unnið sér inn eftir úrskurð örorku.

Til frádráttar ellilífeyri sjóðfélaga þannig reiknuðum skal síðan koma sá ellilífeyrir sem hann hefur afsalað sér samkvæmt grein 11.7. (skipting ellilífeyrisréttinda).

13. Makalífeyrir

13.1. Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum fyrir andlátið og lætur eftir sig maka, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.

13.2. Óskertur makalífeyrir skv. grein 13.6. er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði og síðan að hálfu í allt að 24 mánuði til viðbótar, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlátið.

13.3. Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 20 ára aldri, enda sé það á framfæri makans.

13.4. Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára.

13.5. Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem búa saman og hafa gert í a.m.k. tvö ár í sambandi sem jafna má til hjúskapar og eiga sameiginlegt skráð lögheimili. Sama gildir þótt sambúð hafi staðið skemur ef sambúðarfólkið á barn saman eða konan er þunguð. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.

13.6. Makalífeyrisréttindi eru hverju sinni 50% af elli- eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélagans, hvort sem gefur hærri rétt við fráfall. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans. Áunnin réttindi makalífeyrisþega skulu hverju sinni nema áunnum réttindum við úrskurð makalífeyris að viðbættum réttindum vegna:

a. framreiknaðra réttinda í hlutfalli við hundraðshluta makalífeyris af hámarksmakalífeyri eins og hann hefur verið hverju sinni.

b. aukningar- eða skerðingarréttinda sem kann að hafa verið úthlutað eftir að taka makalífeyris hófst.

c. hafi hinn látni notið örorkulífeyris frá sjóðnum bætast einnig við réttindi sem örorkulífeyrisþeginn kann að hafa unnið sér inn eftir úrskurð örorku.

14. Barnalífeyrir

14.1.1. Nú andast sjóðfélagi og eiga þá börn hans og kjörbörn yngri en 18 ára rétt til barnalífeyris úr sjóðnum eins og nánar er kveðið á um í þessum kafla, enda hafi hinn látni:

a. greitt iðgjöld til sjóðsins 24 af 36 síðustu mánuðum fyrir andlátið eða 6 mánuði af undanfarandi 12 eða

b. notið ellilífeyris eða örorkulífeyris úr sjóðnum sem svarar til minnst 10.000 kr. á mánuði.

Við mat á því hvort framangreindum skilyrðum er fullnægt er sjóðstjórn rétt að taka mið af efnisreglu greinar 12.2. að breyttu breytanda.

14.1.2. Barnalífeyrir greiðist einnig með börnum sjóðfélaga sem nýtur örorkulífeyris úr sjóðnum, enda séu þau fædd eða ættleidd fyrir orkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir. Ef örorka sjóðfélaga er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.

14.1.3. Hafi sjóðfélagi á viðmiðunartímabili skv. 14.1.1. greitt iðgjald að meðaltali af mjög lágum iðgjaldsstofni, kr. 50.000 eða lægra, skal lækka barnalífeyri hlutfallslega þar til hann falli niður hafi iðgjaldsstofn svarað til minna en helmings af ofangreindri viðmiðun. Með sama hætti skal lækka barnalífeyri hlutfallslega með börnum elli- eða örorkulífeyrisþega séu réttindi þeirra svo takmörkuð að lífeyrir sé lægri en kr. 20.000 á mánuði og falla greiðslur barnalífeyris niður sé elli- eða örorkulífeyrir foreldris minni en kr. 10.000 á mánuði.

14.1.4. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

14.2. Fullur barnalífeyrir sem greiddur er með barni örorkulífeyrisþega er kr. 5.500 á mánuði. Barnalífeyrir sem greiddur er með hverju barni látins sjóðfélaga er kr. 7.500 á mánuði. Fjárhæðir þessar skulu breytast í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

14.3. Fósturbörn og stjúpbörn sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera myndu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða. Við ættleiðingu barns með erlent ríkisfang, sem búsett er erlendis, skulu tímamörk skv. þessum kafla miðast við útgáfudag gildandi vilyrðis eða forsamþykkis dómsmálaráðuneytis í stað dagsetningar ættleiðingar-leyfis.

14.4. Barnalífeyrir greiðist framfæranda barns til 18 ára aldurs barnsins.

15. Iðgjaldagreiðslur falla niður

15.1. Nú falla niður launagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda og ávinnur hann sér þá ekki réttindi meðan svo stendur. Tímabil er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður af þessum ástæðum reiknast ekki með þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjalda-greiðslutíma eru uppfyllt.

15.2. Réttur til elli-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjalda-greiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin geymd réttindi sbr. þó 15.1.

16. Endurgreiðsla iðgjalda

16.1. Heimilt er að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjast úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingaverndar sem sjóðfélaginn hefur notið og kostnað vegna umsýslu samkvæmt forsendum tryggingastærðfræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Við endurgreiðslu til sjóðfélaga samkvæmt þessari grein falla niður allar kröfur viðkomandi sjóðfélaga á hendur sjóðnum vegna hinna endurgreiddu iðgjalda.

16.2. Iðgjöld sem greidd eru sjóðnum vegna þeirra sem eru 70 ára eða eldri skulu lögð inn í séreignardeild sjóðsins í nafni sjóðfélaga í þá fjárfestingarleið sem ber minnstu áhættu hjá sjóðnum á hverjum tíma, nema sjóðfélagi ákveði aðra fjárfestingarleið. Skal þá leggja inn bæði iðgjald sjóðfélaga og mótframlag launagreiðanda. Skal tilkynna viðkomandi sjóðfélaga um slíka ráðstöfun. Fer um útgreiðslu eftir almennum ákvæðum séreignardeildarinnar. Iðgjöld sem greidd eru sjóðnum vegna þeirra sem eru yngri en 16 ára skal endurgreiða sjóðfélaga og launagreiðanda iðgjaldshluta þeirra. Skal slík endurgreiðsla eiga sér stað eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

17. Samningar um gagnkvæm réttindi o.fl.

17.1. Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl. Í slíkum samningum má víkja frá biðtíma og bótaákvæðum samþykkta þessara í því skyni að koma í veg fyrir niðurfall réttinda þegar sjóðfélagi skiptir um starf og tvítryggingu réttinda sem ekki miðast við liðinn iðgjaldagreiðslutíma. Ennfremur er þar heimilt að ákveða að sjálfstæð réttindi í einstökum sjóðum skuli samanlagt ekki vera meiri en heildarréttindin myndu verða hjá einum og sama sjóði. Slíkir samningar eru þó ekki bindandi fyrir sjóðinn fyrr en þeir hafa hlotið samþykki Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, svo og staðfestingu ráðherra sé slíkt skylt.

18. Tilhögun lífeyrisgreiðslna, verðtrygging viðmiðunarfjárhæða

18.1. Lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum eru ákvarðaðar á grundvelli umsóknar á umsóknareyðublöðum frá sjóðnum. Skylt er umsækjanda að láta sjóðnum í té allar upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að ákvarða lífeyri í samræmi við réttindi sjóðfélagans samkvæmt samþykktum þessum. Láti umsækjandi sjóðnum ekki í té tilskildar upplýsingar er honum rétt að vísa umsókn frá. Þá er lífeyrisþegum skylt að upplýsa sjóðinn um breytingar á högum sínum að því marki sem þær kunna að hafa áhrif á rétt til greiðslu lífeyris eða fjárhæð hans. Þessi atriði skulu tiltekin í tilkynningu til umsækjanda um ákvörðun lífeyris og á lífeyrisyfirlitum.

18.2. Það getur varðað réttindamissi ef umsækjandi um lífeyri leggur vísvitandi fram rangar upplýsingar sem til þess eru fallnar að auka lífeyrisgreiðslur honum til handa umfram það sem hann á rétt á. Ennfremur ef lífeyrisþegi vísvitandi leynir sjóðinn breytingum á aðstæðum sem áhrif hafa á rétt til lífeyris.

18.3. Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftirá, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð er lífeyrisréttur myndaðist, og síðasta sinn fyrir þann mánuð er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Aldrei skal þó sjóðstjórn skylt að úrskurða lífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár, reiknuð frá byrjun mánaðar er umsókn berst sjóðnum. Úrskurður skv. þessu skal þá miðast við réttindareglur eins og þær hafa verið á umræddu tímabili og lífeyrir skv. verðlagi hvers tímabils. Vextir greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur. Lífeyrir skv. umsókn um töku ellilífeyris fyrir hinn almenna ellilífeyrisaldur sbr. gr. 11.3. og 10.5. greiðist þó fyrst frá upphafi þess mánaðar er umsókn berst sjóðnum. (Ákvæði lokamálsliðar þessarar greinar taki gildi þann 1. janúar 2007.)

18.4. Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð er svarar til a.m.k. 2.500 króna á mánuði miðað við 67 ára aldur og fyrirsjáanlegt er að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi þar sem verðmæti miðast við tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins á útgreiðsludegi.

18.5. Þar sem samþykktir þessar tilgreina fjárhæðir í krónum talið, miðast verðgildi þeirra við gildi vísitölu neysluverðs 230 og skulu fjárhæðir endurreiknaðar mánaðarlega í samræmi við breytingar á vísitölunni, nema annað sé tekið fram í viðkomandi grein.

19. Bann við framsali og veðsetningu lífeyris

19.1. Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.

20. Málsmeðferð og gerðardómur

20.1. Um málsmeðferð í ágreiningsmálum sjóðfélaga gagnvart lífeyrissjóðnum gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eftir því sem við á, svo sem um birtingu ákvörðunar, rökstuðning og endurupptöku.

20.2. Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði sjóðstjórnar í máli er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað málinu til gerðardóms innan þriggja mánaða frá því tilkynnt var um úrskurðinn. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum af lífeyrissjóðnum og oddamanni tilnefndum af Fjármálaeftirlitinu. Gerðardómurinn skal úrskurða í málinu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga sem lágu fyrir sjóðstjórn er hún tók ákvörðun um málið. Komi fram nýjar kröfur, sönnunargögn og málsástæður við meðferð málsins fyrir gerðardómi, skal málinu vísað aftur til sjóðstjórnar til endurupptöku. Sjóðstjórn er þá skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. Úrskurður gerðardómsins er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en 1/3 málskostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer að öðru leyti samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.

21. Eftirlit

21.1. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðsins í samræmi við lög nr. 129/1997 og lög nr. 87/1998.

22. Tilgreind séreignardeild

22.1. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldsstofni umfram 12% af iðgjaldsstofni í tilgreinda séreignardeild sjóðsins, enda sé gert ráð fyrir slíku í kjara- eða ráðningarsamningi. Stjórn lífeyrissjóðsins er jafnframt stjórn tilgreindu séreignardeildarinnar.

22.2. Þeir sem óska eftir aðild að tilgreindri séreignardeild skulu tilkynna það til sjóðsins með sannanlegum hætti eftir þeim reglum sem sjóðurinn setur í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða. Sjóðfélagar geta með sama hætti tilkynnt um að þeir óski þess að láta af greiðslum til tilgreindrar séreignardeildar og rennur iðgjald þá til samtryggingardeildar.

22.3. Lífeyrissjóðurinn skal gera breytingar á ráðstöfun iðgjalds til samræmis við tilkynnta ákvörðun sjóðfélaga samkvæmt framansögðu eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur almanaksmánuðum frá því að tilkynning berst með sannanlegum hætti. Ákvörðun um breytingu á ráðstöfun iðgjalds til framtíðar hefur ekki áhrif á þegar ráðstafað iðgjald.

22.4. Iðgjöld sem greidd eru í tilgreinda séreignardeild skulu vera séreign þess rétthafa er greiðir. Framlag í tilgreinda séreignardeild gefur ekki rétt til fyrirfram ákveðins lífeyris heldur skal útborgun úr sjóðnum vera í samræmi við inneign hvers og eins.

22.5. Sjóðfélaga er heimilt að hefja úttekt úr tilgreindri séreignardeild frá 62 ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

22.6. Rétthafi sem vegna örorku verður að hætta störfum áður en hann nær 62 ára aldri á rétt á að fá inneign sína í tilgreindri séreignardeild greidda með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á eigi skemmri tíma en 7 árum. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

22.7. Við andlát rétthafa öðlast erfingjar hans rétt til innstæðunnar eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana 2. msl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

22.8. Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á eina eða fleiri ávöxtunarleiðir í tilgreindri séreignardeild. Móta skal sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997. Ef boðið er upp á fleiri en eina ávöxtunarleið tilkynnir sjóðfélagi um val milli leiða með tilkynningu til sjóðsins á formi sem sjóðurinn ákveður. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið getur sjóðfélagi óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur.

22.9. Rekstur tilgreindrar séreignardeildar er fjárhagslega aðskilinn rekstri sjóðsins og annarra deilda. Sameiginlegum kostnaði skal skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli rekstrarþátta deilda sjóðsins. Heimilt er að varsla og reka eignasafn tilgreindrar séreignardeildar ásamt eignasafni annarra deilda sjóðsins. Sérhver deild á þá hlutfallslegt tilkall til eignasafnsins og tekur hlutfallslega þátt í kostnaði.

22.10. Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum í tilgreindri séreignardeild nema slíkt sé sérstaklega heimilað skv. lögum nr. 129/1997.

23. Séreignardeild

23.1. Til séreignardeildar er launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimilt að greiða iðgjald til séreignarsparnaðar eða viðbótartryggingaverndar skv. lögum nr. 129/1997. Stjórn lífeyrissjóðsins er jafnframt stjórn séreignardeildarinnar.

23.2. Þeir sem vilja greiða til séreignardeildar skulu gera skriflegan samning við sjóðinn í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997 og reglugerð með lögunum þar um. Einnig er heimilt á grundvelli kjarasamnings, án skriflegs samnings við sjóðinn, að taka við greiðslum iðgjalds frá atvinnurekanda til séreignarsparnaðar launamanna án framlags af þeirra hálfu.

23.3. Stjórn sjóðsins er heimilt að fenginni skriflegri beiðni einstakra rétthafa að draga af inngreiddum iðgjöldum þeirra upphæð, sem svarar til iðgjalds vegna líf- eða heilsutryggingar. Um útborgun gilda ákvæði 11. gr. laga nr. 129/1997. Séreignardeildin skal eiga aðild að samningi um kaup á slíkum tryggingum og skulu bætur samkvæmt honum renna til sjóðsins og færast sem inneign hjá honum í séreignardeild eða sem réttindi í samtryggingardeild.

23.4. Iðgjöld sem greidd eru í séreignardeild skulu vera séreign þess rétthafa er greiðir og tilgreind á sérstökum reikningi hans.

23.5. Nettótekjur séreignardeildar skiptast milli rétthafa í hlutfalli við eign hvers um sig og færast árlega á sérreikning þeirra (sjá þó 23.11.). Eignir sjóðsins skulu uppfærðar daglega miðað við markaðsverð og miðast hlutdeild sjóðfélaga í séreignardeild við þann reiknigrunn.

23.6. Framlag í séreignardeild gefur ekki rétt til stiga eða fyrirfram ákveðins lífeyris heldur skal útborgun úr sjóðnum vera í samræmi við inneign hvers og eins.

23.7. Heimilt er að hefja útborgun séreignarsparnaðar og vaxta þegar rétthafi er orðinn 60 ára, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign.

23.8. Heimilt er að hefja útborgun séreignarsparnaðar og vaxta með jöfnum árlegum greiðslum til rétthafa, sem verður að hætta störfum vegna örorku, á eigi skemmri tíma en 7 árum eða á þeim tíma sem rétthafa vantar uppá 60 ára aldur. Nú er örorkan metin lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu og útgreiðslutíminn lengist samsvarandi.

23.9. Við andlát rétthafa öðlast erfingjar hans rétt til innstæðunnar eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana 2. msl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

23.10. Ef innstæða rétthafa er undir kr. 500.000 er honum heimilt að fá eingreiðslu eða dreifa útborgun á skemmri tíma en 7 ár, en þó skal mánaðarleg greiðsla ekki vera hærri en kr. 10.000. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

23.11. Stjórn sjóðsins er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka deild í samræmi við ákvæði 36. gr. a. laga nr. 129/1997, sem rétthafi getur valið um í samningi sínum við séreignardeildina.

23.12. Rekstur séreignardeildarinnar er fjárhagslega aðskilinn rekstri sjóðsins. Sameiginlegum kostnaði skal skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli rekstrarþátta deilda sjóðsins.

23.13. Samningi er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Samningur fellur úr gildi ef rétthafi hættir störfum, sem er forsenda fyrir greiðslu hans til sjóðsins, nema hann óski þess að halda áfram að greiða til séreignardeildar. Uppsögn samnings um séreignarsparnað eða viðbótartryggingavernd veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda. Rétthafa er heimilt að flytja inneign sína eða réttindi sín, að undangenginni uppsögn, milli vörsluaðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, gegn greiðslu kostnaðar.

23.14. Um heimild til endurgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign til erlendra ríkisborgara gilda ákvæði 1. málsliðar gr. 16.1.

23.15. Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd eða lífeyrisréttindi í séreign. Þó er heimilt að gera samkomulag skv. 1.-3. tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skiptingu réttindanna milli rétthafa og maka hans.

24. Breytingar á samþykktum

24.1. Tillögur um breytingar á samþykktum þessum má því aðeins taka fyrir að þær hafi borist stjórn sjóðsins a.m.k. fyrir 15. janúar ár hvert. Stjórn sjóðsins skal minnst fjórum vikum fyrir ársfund senda aðildarfélögum sjóðsins og Samtökum atvinnulífsins tillögur um breytingar á samþykktum til kynningar. Ennfremur verður að geta tillagnanna í fundarboði. Miði tillaga að aukningu réttinda eða breytingum á fjárfestingarstefnu sem ætla má að haft geti áhrif á getu sjóðsins til greiðslu lífeyris skal fylgja tryggingafræðileg úttekt á afleiðingum breytingarinnar á gjaldhæfi sjóðsins. Breytingartillögu sem skert getur stöðu sjóðsins svo hann fullnægi ekki lágmarkskröfum skv. lögum nr. 129/1997 eða samningi milli ASÍ og VSÍ um lífeyrismál, 12. desember 1995, með síðari breytingum, skal vísað frá ársfundi. Tillögurnar skulu liggja frammi á skrifstofu sjóðsins í tvær vikur fyrir ársfund og það auglýst þannig að sjóðfélögum gefist kostur á að koma að athugasemdum á ársfundi.

24.2. Tillaga að breytingu á ákvæðum sem teljast efni kjarasamninga, s.s. um iðgjöld og stjórnskipan sjóðsins, þ.á.m. um hlutverk og skipan fulltrúaráðs og stjórnar, verður einungis tekin fyrir á ársfundi að fyrir liggi samþykki 2/3 hluta samtaka atvinnurekenda og launþega sem að sjóðnum standa. Um vægi atkvæða einstakra aðildarfélaga sjóðsins fer þá eftir ákvæðum í gr. 5.3. og þarf þá bæði samþykki tilskilins meirihluta samtaka stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa.

24.3. Breytingar á samþykktum þessum öðlast því aðeins gildi að þær hafi verið samþykktar með a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða fulltrúa á ársfundi sjóðsins og hlotið staðfestingu ráðherra.

24.4. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum þessum án þess að bera þær undir ársfund, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerð. Breytingar sem gerðar eru með heimild í þessari grein skulu kynntar formlega á næsta ársfundi sjóðsins.

25. Gildistaka

Samþykktir þessar öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að staðfesting fjármála- og efnahagsráðuneytis liggur fyrir.

Ákvæði I til bráðabirgða: Á árunum 2023-2025 skal margfalda niðurstöðu framreiknings réttinda skv. grein 12.6. með stuðlinum úr eftirfarandi töflu fyrir þá sem úrskurðaðir verða á örorkulífeyri á hverju ári um sig:

  • Árið 2023 1,06
  • Árið 2024 1,04
  • Árið 2025 1,02

Eftir 2025 verður framreikningur réttinda í samræmi við grein 12.6 og þessi grein fellur brott.




VIÐAUKI A

Réttindatöflur sem gilda frá og með 1. janúar 2023. Réttindatöflurnar koma í stað áður gildandi réttindataflna sem gilda fram að þessu tímamarki.


Tafla I: Árleg lífeyrisréttindi í krónum frá 67 ára aldri fyrir hvert 10.000 króna iðgjald sem sjóðfélagi greiðir á hverju aldursári

Aldur Réttindi
16 2.632
17 2.493
18 2.363
19 2.243
20 2.131
21 2.027
22 1.931
23 1.842
24 1.760
25 1.684
26 1.614
27 1.550
28 1.490
29 1.436
30 1.386
31 1.340
32 1.298
33 1.259
34 1.223
35 1.190
36 1.160
37 1.133
38 1.107
39 1.083
40 1.061
41 1.040
42 1.021
43 1.003
44 986
45 970
46 954
47 939
48 924
49 910
50 896
51 883
52 870
53 857
54 844
55 831
56 819
57 806
58 795
59 783
60 772
61 761
62 751
63 741
64 733
65 723
66 714
67 687
68 661
69 636

Réttindi í jafnri ávinnslu eru meðaltal réttinda 25 til og með 64 ára eða 1.048 krónur fyrir hvert 10.000 króna iðgjald.

Forsendur:

Vextir eru 3,5% árlegir verðtryggðir vextir. Aldurs- og iðgjaldasamsetning sjóðfélaga á árinu 2021. Kynjahlutföll: 64% karlar og 36% konur.

Sérhæfðar lífslíkur sem byggja á reynslu árin 2014 - 2018 á meðal sjóðfélaga og gert ráð fyrir lækkandi dánartíðni til framtíðar skv. spá FÍT frá árinu 2021.

Sérhæfðar örorkulíkur sem byggja á reynslu sjóðfélaga árin 2011 – 2016.



Tafla II: Lækkun ellilífeyris þegar taka lífeyris hefst fyrir 67 ára aldur eða hækkun eftir 67 ára aldur.

Margfalda skal réttindi skv. töflu I með viðeigandi margfeldisstuðli miðað við lífeyristökualdur.

Aldur Margfeldisstuðull Prósentubreyting við hvert aldursár Breyting fyrir hvern mánuð á milli aldursára
60 0,635 -36,5% -0,32%
61 0,673 -32,7% -0,35%
62 0,715 -28,5% -0,38%
63 0,761 -23,9% -0,42%
64 0,811 -18,9% -0,46%
65 0,865 -13,5% -0,53%
66 0,929 -7,1% -0,59%
67 1 -
68 1,079 7,9% 0,65%
69 1,166 16,6% 0,73%
70 1,264 26,4% 0,82%
71 1,375 37,5% 0,92%
72 1,499 49,9% 1,04%
73 1,641 64,1% 1,18%
74 1,803 80,3% 1,35%
75 1,989 98,9% 1,55%
76 2,205 120,5% 1,80%
77 2,456 145,6% 2,10%
78 2,752 175,2% 2,46%
79 3,102 210,2% 2,92%
80 3,522 252,2% 3,50%

Tafla III: Hækkunar- og lækkunartöflur fyrir geymd ellilífeyrisréttindi úr Lífeyrissjóði sjómanna

Hlutfallsleg breyting ellilífeyris þegar taka lífeyris hefst fyrir eða eftir 65 ára aldur

Aldur Margfeldisstuðull Prósentubreyting við hvert aldursár Breyting fyrir hvern mánuð á milli aldursára
60 0,734 -26,6% -0,37%
61 0,778 -22,2% -0,40%
62 0,827 -17,3% -0,44%
63 0,879 -12,1% -0,48%
64 0,937 -6,3% -0,53%
65 1
66 1,074 7,4% 0,62%
67 1,156 15,6% 0,68%
68 1,246 24,6% 0,76%
69 1,348 34,8% 0,84%
70 1,461 46,1% 0,94%
71 1,588 58,8% 1,06%
72 1,733 73,3% 1,20%
73 1,896 89,6% 1,37%
74 2,084 108,4% 1,56%
75 2,299 129,9% 1,79%
76 2,548 154,8% 2,08%
77 2,838 183,8% 2,42%
78 3,180 218,0% 2,85%
79 3,585 258,5% 3,37%
80 4,070 307,0% 4,04%

VIÐAUKI B - yfirlit yfir sérstakar breytingar á réttindum

Yfirlit um sérstakar breytingar á áunnum lífeyrisréttindum í samtryggingardeild eftir gildistöku samþykkta Gildis-lífeyrissjóðs hinn 1. júní 2005, samþykktar á ársfundum sjóðsins, skv. greinum 7.3. og 7.4. í samþykktunum og eftir atvikum 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

  1. 26. apríl 2006; samþykkt á ársfundi 7% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2005 og fyrr. Hækkunin færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2005 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2006, sbr. gr. 10.4. í samþykktunum.
  2. 25. apríl 2007; samþykkt á ársfundi 10% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2006 og fyrr. Hækkunin færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2006 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2007, sbr. gr. 10.4. í samþykktunum.
  3. 21.apríl 2009; samþykkt á ársfundi 10% lækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2008 og fyrr. Fært sem lækkun skuldbindinga í réttindayfirliti sjóðsins í desember 2008 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með maímánuði 2009, sbr. gr. 10.4. í samþykktunum.
  4. 28.apríl 2010; samþykkt á ársfundi 7% lækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2009 og fyrr. Fært sem lækkun skuldbindinga í réttindayfirliti sjóðsins í desember 2009. Lækkun á lífeyrisgreiðslum komi til framkvæmda í tvennu lagi; 3,5% 1. júní 2010 og 3,5% 1. nóvember 2010.
  5. 28. apríl 2011: samþykkt á ársfundi 4,3% lækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2010 og fyrr. Fært sem lækkun skuldbindinga í réttindayfirliti sjóðsins í desember 2010 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með næsta mánuði eftir að staðfesting fjármálaráðuneytis þar að lútandi liggur fyrir, sbr. gr. 10.4. í samþykktunum.
  6. 28. apríl 2022; samþykkt á ársfundi að innleiða nýjar dánar- og eftirlifendatöflur sem staðfestar voru af fjármála- og efnahagsráðherra í desember 2021. Samþykkti ársfundur að endurreikna áunnin réttindi til lífeyris samkvæmt eftirfarandi reglum:

Áunnin réttindi hvers hóps sbr. a-liður eða fæðingarárgangs sbr. b-liður voru umreiknuð þannig að verðmæti áfallinna skuldbindinga vegna hvers hóps eða fæðingarárgangs haldist óbreytt samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum eins og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum.

a) Reiknaðar voru áfallnar skuldbindingar sjóðsins vegna allra sjóðfélaga sem náð hafa 67 ára aldri, auk örorku- og makalífeyrisþega, annars vegar samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum og hins vegar samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Útreikningarnir voru miðaðir við 31.12.2021. Áunnin réttindi sjóðfélaga samkvæmt hinum nýju dánar- og eftirlifendatöflum voru endurreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar samtryggingardeildar vegna þessa hóps yrði sama hlutfall af áföllnum skuldbindingum samtryggingardeildar og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Áunnin réttindi framangreinds hóps lækkuðu um 3,9% vegna þessa.

b) Reiknaðar voru áfallnar skuldbindingar vegna annarra sjóðfélaga en tilgreindir eru í a-lið að framan, nema barnalífeyrisþega, annars vegar samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum og hins vegar samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Útreikningarnir voru miðaðir við 31.12.2021. Áunnin réttindi sjóðfélaga samkvæmt hinum nýju dánar- og eftirlifendatöflum voru endurreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar hvers fæðingarárgangs þessa hóps verði sama hlutfall af áföllnum skuldbindingum samtryggingardeildar og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum.

Ársfundur samþykkti jafnframt á sama fundi að í kjölfar framangreindrar aðgerðar skyldu áunnin lífeyrisréttindi allra sjóðfélaga á árinu 2021 og fyrr hækka um 15%.

Þannig var samþykkt að áunnin réttindi voru lækkuð í samræmi við eftirfarandi töflu:

Árgangur Breyting Árgangur Breyting Árgangur Breyting Árgangur Breyting
2005 -12,0% 1992 -11,7% 1979 -10,8% 1966 -8,3%
2004 -12,0% 1991 -11,7% 1978 -10,7% 1965 -8,0%
2003 -12,0% 1990 -11,6% 1977 -10,6% 1964 -7,7%
2002 -11,9% 1989 -11,6% 1976 -10,4% 1963 -7,3%
2001 -11,9% 1988 -11,5% 1975 -10,3% 1962 -7,0%
2000 -11,9% 1987 -11,5% 1974 -10,1% 1961 -6,6%
1999 -11,9% 1986 -11,4% 1973 -9,9% 1960 -6,2%
1998 -11,8% 1985 -11,3% 1972 -9,7% 1959 -5,8%
1997 -11,8% 1984 -11,3% 1971 -9,5% 1958 -5,3%
1996 -11,8% 1983 -11,2% 1970 -9,3% 1957 -4,9%
1995 -11,8% 1982 -11,1% 1969 -9,1% 1956 -4,4%
1994 -11,7% 1981 -11,0% 1968 -8,8% 1955 -4,1%
1993 -11,7% 1980 -10,9% 1967 -8,6%

Breytingar á áunnum réttindum í heild þegar tillit er tekið til hækkunar réttinda um 15% sem ákveðin var á sama fundi voru eftirfarandi:

Árgangur Breyting Árgangur Breyting Árgangur Breyting Árgangur Breyting
2005 1,2% 1992 1,5% 1979 2,6% 1966 5,5%
2004 1,2% 1991 1,5% 1978 2,7% 1965 5,8%
2003 1,2% 1990 1,7% 1977 2,8% 1964 6,1%
2002 1,3% 1989 1,7% 1976 3,0% 1963 6,6%
2001 1,3% 1988 1,8% 1975 3,2% 1962 6,9%
2000 1,3% 1987 1,8% 1974 3,4% 1961 7,4%
1999 1,3% 1986 1,9% 1973 3,6% 1960 7,9%
1998 1,4% 1985 2,0% 1972 3,8% 1959 8,3%
1997 1,4% 1984 2,0% 1971 4,1% 1958 8,9%
1996 1,4% 1983 2,1% 1970 4,3% 1957 9,4%
1995 1,4% 1982 2,2% 1969 4,5% 1956 9,9%
1994 1,5% 1981 2,3% 1968 4,9% 1955 10,3%
1993 1,5% 1980 2,5% 1967 5,1%

Áunnin réttindi 67 ára og eldri auk örorku- og makalífeyrisþega hækka um 10,5%. Framangreindar hlutfallslegar breytingar á áunnum réttindum árganga verða framkvæmdar eigi síðar en þann 1. september 2022. Hafi ráðherra ekki staðfest breytingar á samþykktum sjóðsins fyrir þann tíma verða breytingar framkvæmdar fyrsta virka dag næsta mánaðar á eftir staðfestingu ráðherra.

Ráðstöfun örorkuframlags 2011:

a. Auka skal réttindainnvinnslu sjóðfélaga sem nemur 4,5% iðgjalda þeirra. Réttindi skv. ákvæði þessu reiknast að fullu skv. reglum um aldursháða ávinnslu. Þessi réttindi skal auðkenna sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins og veita þau ekki rétt til framreiknings.

b. Greiða skal viðbótarlífeyri til lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega sem nemur 4,5% af lífeyri þeirra. Viðbótarlífeyririnn greiðist mánaðarlega eins og annar lífeyrir. Þessi viðbótarlífeyrir skal merktur sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins.

Ráðstöfun örorkuframlags 2018:

a. Auka skal réttindainnvinnslu sjóðfélaga sem nemur 4,0% iðgjalda þeirra. Réttindi skv. ákvæði þessu reiknast að fullu skv. reglum um aldursháða ávinnslu. Þessi réttindi skal auðkenna sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins og veita þau ekki rétt til framreiknings.

b. Greiða skal viðbótarlífeyri til lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega sem nemur 4,0% af lífeyri þeirra. Viðbótarlífeyririnn greiðist mánaðarlega eins og annar lífeyrir. Þessi viðbótarlífeyrir skal merktur sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins.

Yfirlit yfir sérstakar breytingar á áunnum lífeyrisréttindum eftir gildistöku samþykkta Lífeyrissjóðs Vestfirðinga hinn 1. júlí 2005, samþykktar á ársfundum sjóðsins, skv. greinum 7.3. og 7.4. í samþykktunum og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

1. 13. maí 2006; samþykkt á ársfundi 7% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2005 og fyrr. Hækkunin færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2005 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með júlí mánuði 2006, sbr. gr. 10.4. í samþykktunum.

2. 17. maí 2007; samþykkt á ársfundi 10% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2006 og fyrr. Hækkunin færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2006 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með maí mánuði 2007, sbr. gr. 10.4. í samþykktunum.

3. 21. maí 2009; samþykkt á ársfundi 12% lækkun áunninna lífeyrisréttinda miðað við árslok 2008. Lækkunin kemur til framkvæmda hjá lífeyrisþegum vegna lífeyris fyrir júní 2009.

4. 13. maí 2010; samþykkt á ársfundi 8% lækkun áunninna lífeyrisréttinda miðað við árslok 2009. Lækkunin kemur til framkvæmda í tvennu lagi hjá lífeyrisþegum, 4% vegna lífeyris fyrir júní 2010 og önnur 4% vegna lífeyris fyrir október 2010.

5. 25. maí 2011; samþykkt á ársfundi 3% lækkun áunninna lífeyrisréttinda miðað við árslok 2010. Lækkunin kemur til framkvæmda hjá lífeyrisþegum í næsta mánuði eftir að staðfesting fjármálaráðuneytis liggur fyrir.

Ráðstöfun örorkuframlags 2011:

Auka skal réttindainnvinnslu sjóðfélaga sem nemur 3,4% iðgjalda þeirra. Réttindi skv. ákvæði þessu reiknast að fullu skv. reglum um aldursháða ávinnslu. Þessi réttindi skal auðkenna sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins og veita þau ekki rétt til framreiknings.

a. Greiða skal viðbótarlífeyri til lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega sem nemur 3,4% af lífeyri þeirra. Viðbótarlífeyririnn greiðist mánaðarlega eins og annar lífeyrir. Þessi viðbótarlífeyrir skal merktur sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins.

6. 22. maí 2012; Samþykkt á ársfundi 5% lækkun áunninna lífeyrisréttinda miðað við árslok 2011. Lækkunin kemur til framkvæmda hjá lífeyrisþegum 1. júní 2,5% eða í næsta mánuði eftir að staðfesting fjármálaráðuneytis liggur fyrir og 2,5% 1. október 2012.

Ráðstöfun örorkuframlags 2012:

a. Auka skal réttindainnvinnslu sjóðfélaga sem nemur 3,2% iðgjalda þeirra frá og með 1. janúar 2013 en um 3,4 % fram til þess tíma samkvæmt gildandi samþykktum. Réttindi skv. ákvæði þessu reiknast að fullu skv. reglum um aldursháða ávinnslu. Þessi réttindi skal auðkenna sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins og veita þau ekki rétt til framreiknings.

b. Greiða skal viðbótarlífeyri til lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega sem nemur 3,2% af lífeyri þeirra frá og með 1. janúar 2013 en um 3,4% fram til þess tíma samkvæmt gildandi samþykktum. Viðbótarlífeyririnn greiðist mánaðarlega eins og annar lífeyrir. Þessi viðbótarlífeyrir skal merktur sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins.

7. 22. maí 2013; Samþykkt á ársfundi 5% lækkun áunninna lífeyrisréttinda miðað við árslok 2012. Lækkunin kemur til framkvæmda hjá lífeyrisþegum 1. Júní 2,5% eða í næsta mánuði eftir að staðfesting fjármálaráðuneytis liggur fyrir og 2,5% 1. október 2013.

Ráðstöfun örorkuframlags 2013:

a. Auka skal réttindainnvinnslu sjóðfélaga sem nemur 2,9% iðgjalda þeirra frá og með 1. janúar 2014 en um 3,2 % fram til þess tíma samkvæmt gildandi samþykktum. Réttindi skv. ákvæði þessu reiknast að fullu skv. reglum um aldursháða ávinnslu. Þessi réttindi skal auðkenna sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins og veita þau ekki rétt til framreiknings.

b. Greiða skal viðbótarlífeyri til lífeyrisþega annarra en barnalífeyrisþega sem nemur 2,9% af lífeyri þeirra frá og með 1. janúar 2014 en um 3,2% fram til þess tíma samkvæmt gildandi samþykktum. Viðbótarlífeyririnn greiðist mánaðarlega eins og annar lífeyrir. Þessi viðbótarlífeyrir skal merktur sérstaklega í réttindabókhaldi sjóðsins.



Samþykktir á PDF formi og eldri samþykktir