17. desember 2025

Uppfærð hluthafastefna og áherslur ársins 2026

Gildi hefur gefið út uppfærða hluthafastefnu sjóðsins. Uppfærslan tekur meðal annars mið af framkvæmd sjóðsins undanfarin ár og er ætluð til frekari skýringar á áherslum sjóðsins, s.s. varðandi starfskjarastefnur, árangurstengdar greiðslur og aðkomu að vali á stjórnarmönnum hjá skráðum félögum. Hluthafastefnunni er ætlað að draga fram áherslur sjóðsins sem langtímafjárfestis og til þess að skapa gagnsæi og veita aukinn fyrirsjáanleika um það hvernig Gildi beitir sér sem hluthafi.

Áherslur næsta árs

Líkt og fram kemur í skýrslu sjóðsins um framkvæmd hluthafastefnu mun Gildi á árinu 2026 leggja áherslu á eftirfarandi lykilatriði í samskiptum sínum við félög á markaði:

Skýrari og gagnsæjar starfskjarastefnur

Gildi leggur áherslu á að starfskjarastefnur séu gagnsæjar og byggðar á skýrum mælikvörðum um árangur í þeim tilfellum sem notast er við breytileg starfskjör. Breytileg starfskjör eigi að vera í hófi, rökstudd og tengd þeim árangri sem stjórnendur geta raunverulega haft áhrif á í störfum sínum.

Opnari samskipti við tilnefningarnefndir

Sjóðurinn hvetur til þess að tilnefningarnefndir eigi reglulegt samtal við stærstu hluthafa og veiti skýrari innsýn og rök fyrir því hvernig tillögur þeirra um samsetningu stjórna endurspegli þarfir og framtíðarstefnu félaga.

Nýja hluthafastefnu má finna hér:

Hluthafastefna Gildis 2026