13. nóvember 2025

Sjóðfélagafundur Gildis: Farið yfir stöðu sjóðsins

Á sjóðfélaga- og fulltrúaráðsfundi Gildis, sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær, miðvikudaginn 12. nóvember, var m.a. farið yfir ávöxtun, rekstur og stöðu sjóðsins á árinu.

Á fundinum kom fram að hrein nafnávöxtun á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2,3% og hrein raunávöxtun var því neikvæð um 1,2%. Hrein eign sjóðsins í lok september nam 1.126,7 milljörðum króna og hefur hækkað um 38,1 ma.kr. það sem af er ári. Áætluð tryggingafræðileg staða sjóðsins stóð í -3,5% í lok september. Lífeyrisgreiðslur sjóðsins til sjóðfélaga námu 27,4 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hækkuðu um tæp 9% milli ára. Fram kom á fundinum að staðan í dag sé töluvert breytt samhliða miklum breytingum á mörkuðum og að nafnávöxtun sjóðsins m.v. 10. nóvember hafi staðið í 5,4%.

Mjög góð raunávöxtun Gildis til lengri tíma

Raunávöxtun Gildis til lengri tíma hefur verið mjög góð eins og myndin hér fyrir ofan sýnir.

Á fundinum var vakin athygli á að langtímaávöxtun sjóðsins hefur verið meðal þess sem best gerist meðal innlendra lífeyrissjóða til lengri tíma. Jafnframt var farið yfir samanburð á ávöxtun lífeyrissjóða í löndunum í kringum okkar. Sú yfirferð sýnir að ávöxtun íslenskra sjóða stenst vel allan samanburð, en hægt er að kynna sér það nánar í glærum sem birtar voru á fundinum.

Gildi gert betur en innlendi markaðurinn

Í yfirferð um stöðu á mörkuðum kom fram að fyrstu tíu mánuðir ársins hafi verið þungir á innlendum hlutabréfamarkaði eftir töluverða hækkun á seinni hluta ársins 2024. Þannig lækkaði heildarvísitala markaðarins um 9,5% á tímabilinu. Í því sambandi var bent á áhrif tollahótana Donald Trump, áhrif breytinga á skattaumhverfi innanlands og síðan röð neikvæðra frétta síðustu vikur, svo sem gjaldþrot Play, óvissu vegna vaxtadóms og að lokum bilun hjá Norðuráli á Grundartanga. Við það bætist viðvarandi verðbólga innanlands. Fram kom á fundinum að árangur Gildis í innlendum hlutabréfum hafi þó verið mun betri en markaðurinn það sem af er ári.

Innlend skuldabréf hafa aftur á móti skilað ágætri ávöxtun á árinu og þróun á erlendum mörkuðum verið mjög hagfelld. Umtalsverð styrking krónu gagnvart dollar hefur þó dregið úr góðri ávöxtun erlendra eigna sjóðsins.

Fundin verði varanleg lausn til framtíðar

Á fundinum var farið yfir áhrif þess ef ríkið hættir að greiða framlag til jöfnunar örorku inn í lífeyriskerfið. Málið er sérstaklega viðkvæmt fyrir sjóðfélaga Gildis enda greiðir sjóðurinn hlutfallslega hærri örorkulífeyri en flestir aðrir sjóðir á landinu. Stjórnvöld hafa bætt þetta upp með sérstöku örorkuframlagi síðustu ár til þeirra sjóða sem eru með hvað hæsta örorku en hyggjast nú láta af því. Gildi hefur gagnrýnt þessar fyrirætlanir og tóku fundarmenn undir þau sjónarmið en lögðu líka áherslu á að finna þurfi heildstæða og varanlega lausn á þessum vanda til framtíðar.

Fleiri málefni voru tekin til umfjöllunar. Þannig var farið yfir nýja skýrslu um framkvæmd hluthafastefnu Gildis, en hún var birt á vef sjóðsins í gær. Niðurstaða Mercer CFA, þar sem lífeyriskerfi víðs vegar um heiminn eru borin saman, var kynnt en hún sýnir að lífeyriskerfið á Íslandi er eitt það besta í heiminum. Að lokum var farið yfir breytt fyrirkomulag við skipan fulltrúaráðs, breytta stöðu á lánamarkaði eftir nýlegan dóm Hæstaréttar auk þess sem ný ásýnd sjóðsins var kynnt.

Björgvin Jón Bjarnason stjórnarformaður Gildis setti fundinn en með erindi voru Davíð Rúdólfsson framkvæmdastjóri og Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður eignastýringar.

Fundarstjóri var Aðalbjörn Sigurðsson, sérfræðingur Gildis í samskiptum og markaðsmálum.

Hægt er að nálgast kynningarglærur frummælenda hér á vef sjóðsins, en á sama stað er upptaka af fundinum aðgengileg.

Frummælendur á opnum fundi sjóðfélaga og fulltrúaráðs Gildis í nóvember 2025

Gestir á opnum fundi sjóðfélaga og fulltrúaráðs Gildis í nóvember 2025

Gestir á opnum fundi sjóðfélaga og fulltrúaráðs Gildis í nóvember 2025

Gestir á opnum fundi sjóðfélaga og fulltrúaráðs Gildis í nóvember 2025