12. desember 2025

Nýjar og uppfærðar „Mínar síður“

Ný og uppfærð útgáfa af „Mínum síðum“ Gildis fór í loftið í byrjun vikunnar en vinna við uppfærsluna hefur staðið yfir síðustu mánuði. Á uppfærðum vef er meðal annars að finna nýja og öfluga lífeyrisreiknivél. Tenging við lífeyrisgáttina hefur verið endurbætt en þar geta sjóðfélagar séð upplýsingar um lífeyrisréttindi sín í öðrum lífeyrissjóðum landsins. Gagnaöryggi hefur enn fremur verið aukið og notendaflæði bætt.

Ný lífeyrisreiknivél

„Vefurinn hefur verið í stöðugri þróun síðustu ár með það að markmiði að auðvelda aðgangi sjóðfélaga Gildis að upplýsingum um réttindi þeirra og stöðu. Við uppfærsluna nú lögðum við áherslu á að bjóða upp á öfluga lífeyrisreiknivél svo að sjóðfélagar geti áætlað á einfaldari og nákvæmari hátt en áður hvaða lífeyrisréttindi standa þeim til boða þegar starfsævinni lýkur.“ segir Ágústa Hrönn Gísladóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs Gildis. „Eftir breytinguna geta sjóðfélagar nú enn fremur skráð símanúmer sín og netföng á Mínum síðum, sem er mjög mikilvægt fyrir bæði sjóðinn og notendur. Með því getum við sent mikilvægar upplýsingar um lífeyrisréttindi til þeirra sem vilja“ bætir Ágústa við.

Ágústa Hrönn Gísladóttir

Ágústa Hrönn Gísladóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs Gildis.

Ný uppfærsla tryggir aukið öryggi

„Það sem notendur eiga að sjá eftir uppfærsluna er að vefurinn hefur verið sniðinn betur en áður að farsímum og öðrum snjalltækjum enda sjáum við að meirihluti sjóðfélaga notar slík tæki þegar vefurinn er heimsóttur. Einnig hefur allt notendaflæði verið endurskoðað og bætt“ segir Skúli Geir Jensson, forstöðumaður upplýsingatækni Gildis sem hefur leitt vinnu við endurskoðun á vefnum síðustu mánuði. „Stærsta breytingin liggur þó í tækninni bak við vefinn sem tryggir betra gagnaöryggi en hægt var á eldri vef. En þegar kemur að viðhaldi á „mínum síðum“ Gildis þá lýkur starfinu aldrei og við erum strax farin að huga að næstu verkefnum og næstu uppfærslu“ segir Skúli að lokum.

Skúli Geir Jensson

Skúli Geir Jensson, forstöðumaður upplýsingatækni Gildis