21. október 2025

Jöfnun örorku ekki aukaatriði í fjárlögum

Verkafólk og sjómenn munu njóta lakari lífeyrisréttinda en aðrar stéttir á vinnumarkaði verði af fyrirætlun stjórnvalda um að skerða greiðslur til lífeyrissjóða. Þetta kemur fram í grein sem Björgvin Jón Bjarnason, formaður stjórnar Gildis, birti á Vísi í dag.

Björgvin Jón Bjarnason, formaður stjórnar Gildis

Greiðslurnar sem stjórnvöld ætla samkvæmt drögum að fjárlagafrumvarpi að afnema, hafa síðustu áratugi verið notaðar til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða og þar með sjóðfélaga þeirra. Ástæðan er að lífeyrissjóðir greiða mishátt hlutfall af tekjum sínum í örorkulífeyri. Því hærri sem þessar örorkugreiðslur eru, því minna er til skiptanna til að greiða elli-, maka- og barnalífeyri. Hvergi í lífeyriskerfinu er örorkubyrðin hærri en hjá sjóðfélögum Gildis en almennt er hún hærri hjá lífeyrissjóðum verkafólks en í lífeyrissjóðum annarra starfsstétta.

„Rétt er að hafa í huga að lífeyrissjóðir eru ekki fyrirtæki með eigið fé sem hægt er að nota í verkefni eins og að jafna örorkubyrði“ segir Björgvin Jón í grein sinni. Verði af fyrirætlunum stjórnvalda hafa lífeyrissjóðir með háa örorkubyrði, þar á meðal Gildi, það eina úrræði að skerða lífeyrisréttindi. Björgvin Jón segir að það skjóti skökku við stjórnvöld vilji á þennan hátt auka ójöfnuð í samfélaginu.

„Þessi umræða er mun alvarlegri og mikilvægari fyrir samfélagsgerð okkar en að það eigi að taka hana sem eitthvað aukaatriði við gerð fjárlaga hvers árs,“ segir Björgvin Jón enn fremur og hvetur stjórnvöld til að skoða málið heildstætt og móta grundvallarreglur um það til frambúðar.

Greinina má finna hér: Örorkubyrði og örorkuframlag líf­eyris­sjóða