12. nóvember 2025

Gildi birtir skýrslu um framkvæmd hluthafastefnu 2025

Gildi hefur birt skýrslu um framkvæmd hluthafastefnu 2025 á heimasíðu sinni. Þar er farið yfir helstu áherslur Gildis sem hluthafa og þau atriði sem sjóðurinn lagði helst áherslu á í ár og þær áherslur sem lagt er upp með á árinu 2026. Stefnan á við um skráð félög sem sjóðurinn á verulegan eignarhlut í.

Helstu verkefni á árinu 2025

Fyrir aðalfundi félaga leggur Gildi áherslu á að rýna faglega tillögur sem liggja fyrir fundunum á grundvelli hluthafastefnu sjóðsins og kemur fram með ábendingar í þeim tilvikum sem þörf er talin á. Í skýrslunni er farið yfir helstu athugasemdir sem sjóðurinn hafði við fyrirliggjandi tillögur á aðalfundum og hluthafafundum félaga það sem af er þessu ári. Hafa þær m.a. snúið að skipan tilnefningarnefnda, starfskjarastefnum og heimildum til kaupa á eigin bréfum eða heimilda til hækkunar á hlutafé.

„Gildi tekur virkan þátt í aðal- og hluthafafundum þeirra félaga sem sjóðurinn á hlut í og beitir sér þar með tillögugerð, bókunum og ábendingum eða með þátttöku í umræðum við stjórnir og aðra hluthafa. Leiðarljós í þeirri vinnu er hluthafastefna sjóðsins sem við höfum lagt mikla vinnu í að setja saman og fylgja eftir síðustu ár,“ segir Davíð Rúdólfsson framkvæmdastjóri Gildis.

Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis-lífeyrissjóðs

Áherslur næsta árs

Gildi mun á árinu 2026 leggja áherslu á eftirfarandi lykilatriði í samskiptum sínum við félög á markaði. Þær áherslur eru í stuttu máli þessar:

Skýrari og gagnsæjar starfskjarastefnur

Gildi leggur áherslu á að starfskjarastefnur séu gagnsæjar og byggðar á skýrum mælikvörðum um árangur í þeim tilfellum sem notast er við breytileg starfskjör. Breytileg starfskjör eigi að vera í hófi, rökstudd og tengd þeim árangri sem stjórnendur geta raunverulega haft áhrif á í störfum sínum.

Opnari samskipti við tilnefningarnefndir

Sjóðurinn hvetur til þess að tilnefningarnefndir eigi reglulegt samtal við stærstu hluthafa og veiti skýrari innsýn og rök fyrir því hvernig tillögur þeirra um samsetningu stjórna endurspegli þarfir og framtíðarstefnu félaga.

„Gildi leggur sig fram sem virkur hluthafi með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á áherslur og stjórnarhætti þeirra félaga sem hann fjárfestir í. Þetta gerum við til þess að stuðla að því að ákvarðanir á hluthafafundum séu teknar með langtímasjónarmið og ávöxtun í huga. Við leggjum áherslu á gegnsæi í þeirri vinnu og birting skýrslunnar er mikilvægur hluti af þeirri upplýsingagjöf sjóðsins. Því til viðbótar höfum við um langt árabil birt á vef sjóðsins ítarlegar upplýsingar um hvernig sjóðurinn greiðir atkvæði og beitir sér á einstaka aðal- og hluthafafundum skráðra félaga,“ segir Davíð Rúdólfsson.