Fjárfestingarstefna

Gildi er langtímafjárfestir sem hefur það meginmarkmið að tryggja sjóðfélögum sínum bestu mögulegu lífeyrisréttindi og að hámarka lífeyrisgreiðslur til þeirra. Sjóðurinn mótar sér árlega fjárfestingarstefnu þar sem áherslur sjóðsins sem langtímafjárfestis eru skilgreindar. Við mótun og framkvæmd stefnunnar eru hagsmunir sjóðfélaga ávallt hafðir að leiðarljósi.

Við gerð fjárfestingarstefnu er tekið mið af stöðu og horfum á fjármálamörkuðum, bæði innanlands og utan. Einnig eru metnar langtímavæntingar til helstu atvinnugeira, landsvæða, verðbréfaflokka og gjaldmiðla. Í því skyni á sjóðurinn samtal við greiningar- og markaðsaðila, sem er jafnframt hluti af stöðugri greiningarvinnu sjóðsins yfir árið. Endanleg stefna byggir á langtímahorfum og varanlegum ávöxtunartækifærum fremur en skammtímasveiflum á mörkuðum. Með því vill sjóðurinn tryggja að fjárfestingar hans stuðli að traustri og sjálfbærri ávöxtun fyrir sjóðfélaga til framtíðar.

Gildi-lífeyrissjóður starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 með síðari breytingum, skv. reglugerð nr. 698/1998 og á grundvelli samkomulags stéttarfélaga og atvinnurekenda frá 19. maí 1969 og 12. desember 1995.