Lífeyrir

Ellilífeyrir

Sjóðfélagi getur hafið töku ellilífeyris milli 60 og 70 ára aldurs.

Ellilífeyrir er greiddur eftirá, mánaðarlega, og breytast greiðslur í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Mánaðarleg fjárhæð lífeyris lækkar sé taka hafin fyrir 67 ára aldur en hækkar sé töku frestað, þó ekki eftir að 70 ára aldri er náð. (Sjá nánar Töflur II-III í samþykktum sjóðsins, um geymd réttindi úr Lífeyrissjóði sjómanna gilda töflur VI –VII).

Ellilífeyrir er greiddur til æviloka í samræmi við áunnin réttindi og er óháður öðrum tekjum lífeyrisþega.

Örorkulífeyrir

Sjóðfélagi sem er metinn til a.m.k. 50% örorku í 6 mánuði að lágmarki getur átt rétt á örorkulífeyri. Skilyrði er að viðkomandi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum örorkunnar.

Örorkulífeyrir er greiddur eftirá, mánaðarlega, og breytast greiðslur í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Örorkulífeyrir er greiddur í ákveðinn tíma samkvæmt mati trúnaðarlæknis. Því fer fram endurmat á örorku reglulega. Sé örorka metin varanleg breytast örorkulífeyrisgreiðslurnar í ellilífeyrisgreiðslur við 67 ára aldur.

Örorkulífeyrisgreiðslur eru tekjutengdar. Á 3ja mánaða fresti fer fram tekjuskoðun. Þar eru bornar saman heildartekjur viðkomandi s.l. ár og tekjur samkv. skattframtölum 4 ár áður en örorkan var metin. Séu tekjur orðnar hærri en sem nemur þeim tekjum sem viðkomandi hafði áður eru örorkulífeyrisgreiðslur skertar eða felldar niður.

Makalífeyrir

Ef sjóðfélagi fellur frá og lætur eftir sig maka þá er réttur til makalífeyris.

Maki telst sá sem var í hjúskap með sjóðfélaga eða óvígðri sambúð. Ef um óvígða sambúð var að ræða verður sambúðin að hafa staðið yfir í a.m.k. 2 ár fyrir andlát sjóðfélaga.

Makalífeyrir er almennt 50% af réttindum sjóðfélaga og greiðist í 3 ár að fullu en síðan í 2 ár að hálfu.  Sé eftirlifandi maki öryrki er þó greiddur fullur makalífeyrir til 65 ára aldurs. Ef börn eru á framfæri makans sem áður voru á framfæri beggja greiðist einnig fullur makalífeyrir þar til yngsta barnið nær 20 ára aldri.

Gangi maki í hjónaband á ný eða stofni til sambúðar sem jafna má til hjúskapar falla makalífeyrisgreiðslur niður.

Um réttindi sem áunnin voru í Lsj. sjómanna og Lsj. Framsýn gilda réttindi til makalífeyris samkv. þeim samþykktum sem voru í gildi 30. maí 2005 séu þau hagstæðari.

Barnalífeyrir

Ef sjóðfélagi fellur frá og lætur eftir sig börn yngri en 18 ára geta þau átt rétt á barnalífeyri.
Skilyrði er að viðkomandi sjóðfélagi hafi greitt til sjóðsins 6 af s.l. 12 mánuðum, 2 af s.l. 3 árum eða notið elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum.

Börn örorkulífeyrisþega geta einnig átt rétt á barnalífeyri. Hafi sjóðfélagi greitt til fleiri en eins sjóðs s.l. 4 ár áður en örorka var metin skiptist barnalífeyrisgreiðslan hlutfallslega á milli þeirra.

Réttindi í mörgum lífeyrissjóðum

Þar sem aðild að lífeyrissjóði fer eftir starfi hafa allmargir greitt til fleiri en eins lífeyrissjóðs.  Þegar kemur að töku lífeyris er í flestum tilfellum nægjanlegt að sækja um hjá síðasta sjóði sem greitt hefur verið til og mun sá sjóður sjá um samskipti við aðra sjóði og senda þeim viðeigandi gögn.